Skosku Proclaimers-tvíburarnir, Charlie og Craig Reid, voru eldhressir þegar þeir lentu í Keflavík síðdegis í gær og létu sér hvergi bregða við hávaðarokið sem tók á móti þeim. „Mér sýnist þetta nú allt saman bara vera mjög svipað og í Skotlandi,“ sagði Craig Reid um veðrið og það litla sem hann hafði séð af Íslandi þegar Fréttablaðið náði tali af honum í gær.

Hann sagði þá bræður hæstánægða með að vera loksins komir til Íslands og ítrekaði þakkir þeirra til Íslendinga sem eins og frægt er orðið komu The Proclaimers, fyrstir allra þjóða, í efsta sæti vinsældalista fyrir rétt rúmum þremur áratugum.

„Við gleymum þessu ekki. Ég er nýbúinn að leiðrétta Ástrala sem ég hitti og sagði mér að við hefðum fyrst komist á toppinn þar. Ég benti honum á að Ísland hefði verið fyrst, síðan Nýja-Sjáland og að Ástralía hefði verið þriðja landið þar sem I’m gonna be hefði komist á toppinn.“

Lífið er fótbolti þannig að Einar Bárðarson mátti stoppa með The Proclaimers á sportbarnum O´Learys í Smáralind á leiðinni til Reykjavíkur frá Keflavík í gær þar sem þeir vildu vita stöðuna í leik Liverpool og Chelsea. Þar greip Stöð 2 þá glóðvolga.

Craig sagðist jafnframt vonast til að sjá sem flesta sem áttu þátt í vinsældum þeirra á Íslandi á tónleikunum í Hörpu í kvöld enda löngu tímabært að þeir láti sjá sig hérna.

Tónleikarnir í Hörpu marka upphaf tónleikaferðar þeirra þetta árið og þeir fljúga aftur heim til Edinborgar á þriðjudaginn og síðan er stefnan tekin á Dúbaí og þaðan til Singapúr og svo áfram til Nýja-Sjálands og Ástralíu, landanna sem meðtóku snilli þeirra á eftir Íslendingum.