Þórlaug er að ljúka fyrra árinu af tveimur í textílnámi í Myndlistarskóla Reykjavíkur. Hún hefur nýtt námið til að gera ýmsar tilraunir með efnið.

„Ég er á byrjunarstigi í þessu öllu. Ég vissi af því að fólk hafði veri að búa til eitthvað úr scoby í gegnum vinkonu mína sem á Kombucha Iceland. En svo fór ég að skoða möguleikana betur þegar ég fór að skoða óhefðbundna efniviði í textílnáminu mínu,“ segir Þórlaug.

Prjónaður þurrkaður scoby. MYND/AÐSEND

Scoby er lífræn aukaafurð sem myndast á yfirborðinu þegar Kombucha er búið til en Kombucha er gerjaður tedrykkur sem er talinn hafa ýmis heilsubætandi áhrif. Hægt er að rækta scoby í heimahúsi og leiðbeiningar um hvernig það er gert má finna á netinu. En Þórlaug lætur nægja í bili að fá scoby gefins frá vinkonu sinni.

„Námið gefur manni nægan tíma og tækifæri til að skoða ýmislegt. Það er hægt að taka námið svolítið í þá átt sem áhugi manns liggur. Ég er ekki beint þessi hefðbundna handavinnumanneskja en ég er mjög tilraunagjörn og þetta efni er alveg geggjað í slíkar tilraunir,“ útskýrir Þórlaug.

„Ég hef prófað að þurrka scoby-inn í mismunandi mótum. Ég hef líka prófað að slétta hann til að nota sem einhvers konar leður, en fólk er byrjað að gera það með ágætum árangri úti í heimi. Það er eitthvað um að fólk sé að gera föt úr honum, skó og veski.“

Scoby er sterkur og hægt að nota hann í margt. Hér er hann blautur og prjónaður . MYND/AÐSEND

Efni með marga möguleika

„Scoby er lífrænt efni sem brotnar niður í náttúrunni og það er enn verið að reyna að finna út úr ýmsum tækniatriðum til að hægt sé að auka framleiðslu á efninu og nýta það betur. Þetta er ótrúlega sterkt efni með spennandi möguleika sem hægt er að nota sem staðgengil fyrir leður í ýmsar vörur. Það er verið að skoða náttúruvænni möguleika en að úða vatnsheldnispreyi á það til að láta það endast lengur,“ útskýrir Þórlaug.

„En svo er spurning hvort efnið þurfi endilega alltaf að vera vatnshelt. Ég er komin svolítið inn á það að velta því fyrir mér hvort einhverjir nytjahlutir megi ekki alveg breyta um form ef það kemur óvart vatn inn á þá. Ég er hvergi nærri hætt að skoða þetta. Ég á ár eftir af náminu og hver veit nema ég fari í meira nám á eftir þar sem hægt er að skoða þetta betur.“

Auk þess að prófa að lita efnið með bæði jurtalitum og kemískum litum, vatnsverja það og fletja það út hefur Þórlaug líka gert tilraunir með að prjóna úr því.

„Ég hef ekki enn fundið neinn á netinu sem hefur prófað að prjóna úr scoby, en útkoman var mjög skemmtileg. Ég hef líka prófað að bleyta upp í scoby-num aftur. Það finnst mér extra spennandi. Það er þrívíddarmöguleiki í efninu. Það er til dæmis hægt að brugga kombucha í formi sem er í laginu eins og formið sem þú vilt hafa scoby-inn sjálfan í. Þá er hægt að gera svipað og Valdís Steinarsdóttir gerði á HönnunarMars. Hún þróaði form sem hún setur lífrænt plast í, úr forminu koma tilbúin föt og svo er hægt að bræða þau aftur í annað form. Það er í raun hægt að láta scoby vaxa í það form sem þú vilt. Hvort sem það er veski eða fatnaður. Mér finnst spennandi að skoða þann vinkil,“ segir Þórlaug.