„Uppskriftin að prinsateppinu þekur heilar tvær blaðsíður og er engin umferð eins. Með tilhlökkun yfir því að taka á móti ungbarni inn í fjölskylduna var prinsateppi prjónað af kappi auk þess sem ég prjónaði heimferðarsett og annað teppi. Lítil stúlka kom svo í heiminn og var allt tilbúið fyrir dömuna,“ segir Hjördís.

Þremur árum seinna var annað barn á leiðinni og þá fékk amman að prjóna blátt.

„Ég var komin í æfingu með prinsateppið og auðvitað átti drengurinn að fá eins teppi, nema blátt. Kapp var lagt á að prjóna heimferðarsett og voru tvö stykki í mismunandi stærð prjónuð ásamt aukateppi.“

Hér má sjá bleikt prinsateppi sem Hjördís prjónaði en líka bleika prjónasmekki, peysu og húfu í stíl, trefil og hvítröndótt peysusett. Allt hlýtt og mjúkt fyrir krílið. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Ætlaði sko ekki að prjóna

Og í dag, tveimur árum seinna, er aftur lítil stúlka á leiðinni sem á að fæðast í byrjun nóvember.

„Amman er orðin dálítið þreytt á að prjóna prinsateppið góða. Mér finnst það vera seinlegt; en hvað gerir amma ekki fyrir ömmubörnin sín? Hún skellir í prinsateppi en nú er það bleikt á litinn. Þetta er prjónað á methraða, enda komin í þjálfun, ásamt bara einu heimferðarsetti. Allt er bleikt á litinn. Tvær stærðir af húfum eru prjónaðar svona til öryggis. Aukateppið er ekki komið enn en verður kannski bara í jólapakkanum,“ segir Hjördís frá.

Það eina sem er eftir áður en ömmugullið kemur í heiminn er að þvo og slétta og bæta við tölum á heimferðarsettið.

En á hvað leggur Hjördís áherslu þegar hún prjónar á barnabörnin?

„Ég legg áherslu á gott garn þegar prjónuð eru ungbarnaföt og að þau séu mjúk og hlý. Minn grundvöllur að prjóna- og saumaskap er uppeldið sem ég fékk. Amma mín, sem ól mig upp, kenndi mér allt sem viðkemur handavinnu. Ég byrjaði seint að læra textíl í skóla eða um tólf ára gömul og mér gekk bara alls ekki vel í fyrsta prjónaverkefninu mínu sem voru ullarvettlingar á fimm prjóna. Annar varð dúkkuvettlingur og hinn á fullorðinn karlmann. Og ég ætlaði sko alls ekki að prjóna í framtíðinni, enda leið langur tími þar til prjónar voru teknir upp aftur. Saumavélin hennar ömmu fékk svo engan frið. Þessa græna, gamla saumavél vekur ávallt hlýjar minningar.“