Daniel hefur mikinn áhuga á ferðalögum og það hafði lengi verið draumur hans að koma til Íslands. Hann segir Ísland mjög vinsælan áfangastað hjá Svisslendingum svo hann hafði séð myndir héðan og heillast af þeim. Hann sagði upp vinnunni sinni sem smiður í Sviss og kom með Norrænu til Íslands fyrir tveimur mánuðum.

„Ég ferðaðist í mánuð hérna á Íslandi með vini mínum og sá marga áhugaverða staði. Svo fór vinur minn heim og ég kom hingað í Búðardal og hef verið hér í mánuð. Ég hef unnið þar sem sjálfboðaliði í gegnum Workaway og hef verið að gera upp hús hér. Ég hef búið hjá Önnu Siggu og Pálma, eigendum Dalakots, en þau eru alveg yndislegt fólk,“ segir Daniel.

Þar sem Daniel hefur haft mikinn frítíma í Búðardal ákvað hann að byrja að prjóna. En það hafði hann ekki gert síðan hann var sjö ára gamall þegar hann lærði að prjóna í grunnskóla. Síðan eru liðin 15 ár svo hann þurfti að læra upp á nýtt.

„Ég fór að prjóna bæði af því ég hafði mikinn tíma og ég hef gaman af að prófa nýja hluti. Svo vantar mig nýja húfu. Ég sá fallegt garn í búðinni hér í Búðardal og ákvað bara að prjóna mér húfu. Ég hef lært af YouTube-myndböndum og kona sem vinnur í Dalakoti kenndi mér líka til að byrja með. Ég var búinn að gleyma öllu sem ég lærði í skólanum þegar ég var lítill. Það gengur hægt hjá mér að prjóna en það gengur samt, ég er enn að klára húfuna,“ segir hann.

:Daniel lærði að prjóna af YouTube og fékk aðstoð frá konu í Búðardal til að byrja með.

Hrifinn af ullinni

Daniel er hrifinn af íslensku ullinni og íslenskum lopapeysum, en sjálfur er hann klæddur í fallega íslenska lopapeysu, gráa með gulum bekk. En hann segist ekki enn kominn svo langt í prjónaskapnum að hann sé farinn að prjóna peysur.

„Ég er að prjóna húfu í sama gula litnum og er í peysunni. Þannig að húfan og peysan verða í stíl. En peysan var gjöf frá gestgjöfum mínum þeim Önnu Siggu og Pálma. Hún var keypt í handverksbúðinni hérna í Búðardal. Ég hef verið að hjálpa til við að smala kindum ofan af fjalli og vantaði eitthvað hlýtt til að vera í við smalamennskuna, svo þau gáfu mér peysuna. En síðan er ég búinn að kaupa tvær íslenskar lopapeysur til viðbótar sem ég ætla að fara með heim til Sviss og gefa fjölskyldunni minni,“ segir hann.

Daniel var á leið til Seyðisfjarðar þegar blaðamaður náði tali af honum en hann siglir þaðan í dag eftir viðburðaríka dvöl á Íslandi. Hann stefnir á að ferðast um Færeyjar í mánuð áður en hann fer aftur heim til Sviss. Daniel segist gríðarlega þakklátur fyrir tíma sinn á Íslandi, sérstaklega fyrir mánuðinn sem hann dvaldi í Búðardal þar sem fólk var einstaklega gestrisið. Hann kemur sjálfur frá litlu Þorpi í Sviss og líkar því vel dvölin á litlum rólegum stað.

Smalamennskan skemmtilegust

„Að vinna sem sjálfboðaliði í Búðardal er besta reynslan sem ég hef haft af vinnu fyrir Workaway sjálfboðaliðasamtökin, hingað til. Ég hef líka upplifað svo margt skemmtilegt hér fleira en að vinna. Að leita að kindum uppi á fjöllum er eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert. Svo hef ég hjálpað fullt af fólki hér að gera upp hús og það hefur verið góð reynsla fyrir mig. En núna er ég á leið heim. Ég ætla að vinna í kannski ár heima í Sviss til að safna peningum og fara svo aftur að ferðast. Draumurinn er að fara næst til Alaska, ég er mjög hrifinn af köldu loftslagi,“ segir hann.

„Ég var í Svíþjóð í fyrra í tvo mánuði á vegum Workaway. Þar var líka frekar kalt, mér líkar það mjög vel.“

Daniel segist örugglega ætla að halda áfram að prjóna eftir að hann kemur heim.

„Ég hugsa að ég prjóni aðra húfu handa vini mínum þegar ég er búinn með þessa sem ég er að prjóna á sjálfan mig, svo þær verða tvær húfurnar. Ég mun svo örugglega prjóna eitthvað meira. Mér finnst það mjög róandi að prjóna.“