Aðalheiður Flosadóttir er miðjubarnið af fimm systkinum en hún segir foreldra þeirra hafa verið nokkurs konar vímuefnalausa hippa, sem ólu þau systkinin upp með það að leiðarljósi að vera sjálfstæð og skapandi.

„Eitt af því sem ég man eftir að hafa heyrt mömmu og pabba segja þegar ég bað þau um að kaupa eitthvað ákveðið handa mér var: „Getur þú ekki bara búið það til?“ Og með þessu svari lærði ég að lifa, það var ekkert verið að kaupa einhverjar merkjavörur, en í staðinn mátti ég nota saumavél móður minnar frá því að ég var aðeins sjö ára,“ segir Aðalheiður.

Fréttablaðið/Ernir

Örlögin gripu í taumana

Aðalheiður er þriggja barna móðir og þar til bara um daginn var hún einstæð, þriggja barna móðir.

„Ég hafði séð auglýsingu á sýningu frá Axel Diego vini mínum. Það var eitthvað við þessa auglýsingu sem gerði það að verkum að ég yrði að komast. Ég reddaði mér pössun og bað Axel að setja mig á gestalista í staðinn fyrir að taka myndir af sýningunni, sem Axel hélt með eiginmanni mínum Eric Broomfeld,“ segir Aðalheiður, en Eric kemur fram sem trúður undir nafninu Jelly Boy.

Örlögin gripu í taumana og vill Eric meina að það hafi verið nánast eins og engill hefði slegið hann utan undir þegar hann spjallaði fyrst við Aðalheiði á Gauknum, þetta örlagaríka kvöld.

„Ég hefði kannski átt að taka það fram fyrr, en ég hafði verið nýbúin að segja við vinkonu mína og ákveða það, að einbeita mér bara að sjálfri mér og börnunum næstu fimm árin,“ segir hún og hlær enda átti það fljótt eftir að breytast.

„Það er svo geggjað að fá þann heiður að kalla hann eiginmann minn. Hann er trúður og sverðgleypir ásamt svo mörgu öðru sem ég er enn að fá að kynnast betur og betur, hann kemur mér sífellt skemmtilega á óvart á allan mögulegan hátt, hann er næmur á fólk og móðir hans vonaðist til þess lengi vel að hann yrði sálfræðingur en hann segir að með því að vera trúður þá kæti hann fólk mun meira,“ segir hún og bætir við að hann sé frábær stjúpfaðir, sem sé auðvitað mikilvægast af öllu.

Fréttablaðið/Ernir

Lærði klæðskerann

Aðeins 10 manns máttu vera viðstaddir brúðkaup Aðalheiðar og Erics vegna samkomutakmarkana, þar með talinn presturinn.

„Það var í raun heppilegt að bróðir minn var ekki á landinu því þá hefði ég þurft að velja á milli systkinanna minna, en við vorum bara tvö, börnin mín þrjú, þrjár systur mínar, móðir mín og presturinn.“

Hvernig kom það til að þú prjónaðir þinn eigin brúðarkjól?

„Það er ekki auðvelt að segja, það tengist því örugglega að ég ólst upp við það að búa til það sem ég vildi frekar en að reyna að finna það til sölu, þar með á ég hreinlega ansi erfitt með að finna mér föt, hvað þá svona sérstök föt, svo er ég mikill ullarunnandi og ég sá bara strax fyrir mér að prjóna kjólinn.

Stóð upphaflega til að kaupa hann annars staðar?

„Nei, það kom ekkert annað til greina en að prjóna hann, mér fannst það bara rökréttast. Enda kosta brúðarkjólar svo mikið og ég lærði klæðskerann og kjólasaum. Svo er ég líka sérvitur í þessum málum, þannig að það hefði bara orðið meira mál held ég,“ segir hún og hlær.

Fréttablaðið/Ernir

Dýrmæt hjálp prjónasnillings

Vinnan að baki kjólnum var ekki svo flókin að sögn Aðalheiðar.

„Ég vissi hvaða munstur ég vildi nota og um það bil hvernig hann átti að líta út. Ég ákvað samt að ráðfæra mig við prjónasnillinginn, vinkonu mína hana Helene Magnusson. Hún hefur verið að framleiða sitt eigið garn sem er nógu fínt í svona verk. Hún lét mig fá band sem er það fínasta og mýksta sem ég hef unnið með í svona prjóni, sem heitir Love Story sem er svo innilega viðeigandi,“ segir Aðalheiður, en kjóllinn vegur ekki nema 170 grömm.

Nokkrir höfðu á orði við Aðalheiði að hún væri hugrökk að prjóna sinn eigin brúðarkjól.

„Mér fannst ég ekkert hugrökk, heldur fannst mér þetta bara eðlilegt. Það tók allt í allt um þrjátíu daga að prjóna hann, en ég held að ég hafi prjónað alveg 3-5 klukkutíma á dag á þeim þrjátíu dögum.“

Fréttablaðið/Ernir