Lítil hug­mynd sem kviknaði í huga Báru Tómas­dóttur, þegar hún var stödd á leið í jarðar­för að kveðja vin sinn, óx heldur betur hratt og er í dag orðin að stóru sam­vinnu­verk­efni sem sprottið er af kær­leik til náungans.

Verk­efnið kallar Bára „Kær­leikur í hverri lykkju“ og snýst það um að prjóna peysur og annan úti­fatnað fyrir fólk á með­ferðar­heimilum landsins.

Með­ferðar­heimilin eru Báru hug­leikin en hún missti son sinn, Einar Darra, fyrir einu og hálfu ári síðan úr lyfja­eitrun.

Bára ásamt syni sínum Einari Darra sem lést úr lyfjaeitrun.
Mynd/Aðsend

Einar Darri elskaði peysurnar sem mamma sín prjónaði

Í við­tali við Frétta­blaðið segir Bára að prjóna­skapurinn hafi hjálpað henni gríðar­lega til þess að komast í gegnum sorgina sem fylgdi and­láti sonar hennar og að hug­myndin að verk­efninu hafi sprottið þegar hún sjálf fékk prjónað sjal í gjöf frá vin­konu sinni.

„Ég hafði prjónað nokkrar peysur fyrir Einar sem elskaði að fá fal­lega prjónaðar peysur og þegar hann deyr að þá fann ég hvað það hjálpaði mér mikið að prjóna. Það hélt mér í núinu og hugurinn var ekki alltaf á flakki í sorginni,“ segir Bára sem segist enn þann dag í dag nota prjóna­skapinn sem nú­vitund.

„Fyrir svona ári síðan þá sendi vin­kona mín mér prjónað sjal og það hittast ein­mitt þannig á að þegar það kom með póstinum var ég að fara í jarðar­för. Ég var búin að vera með svo­lítið í maganum vegna þess að það er enn þá erfiðara fyrir mig að fara í allt svona eftir að ég missti Einar. Með sjalinu fylgdi svo fal­legt bréf þar sem hún sagði mér hvað henni þætti vænt um mig og að hún væri að hugsa til mín. Hún vildi gefa mér hlýju með sjalinu,“ segir Bára.

Ást og kærleikur í prjónuðum gjöfum

Bára á­kvað að fara með sjalið um hálsinn í jarðar­förina og segist hún hafa fundið styrk í þessari fal­legu gjöf sem hún varð svo snortin yfir.

„Mér hefur alltaf fundist prjónaðar gjafir eitt af því fal­legasta sem maður getur gefið, eins og ung­barna­sett þegar börnin fæðast í heiminn. Það er svo mikil ást og kær­leikur í kringum þetta. Ég hugsaði um þetta á leiðinni í jarðar­förina, hvað mig langaði að prjóna eitt­hvað og gefa og með­ferðar­heimilin og það fólk sem leitar sér hjálpar þar er mér auð­vitað mjög hug­leikið mál­efni,“ segir Bára.

Ný­lega hafði Bára farið og fengið að skoða með­ferðar­heimili á vegum SÁÁ, Hlað­gerðar­kot og Krýsu­vík og segist hún dást að fólkinu sem leitar sér hjálpar þar inni.

„Það snerti mig sér­stak­lega allir þessir ungu drengir, þeir eru svo margir og ég sá bara liggur við Einar minn á öllum þessum stöðum. Þetta hefði alveg eins geta verið mitt barn þarna svo að hug­myndin varð sú að mig langaði að gleðja þetta fólk,“ segir Bára og viður­kennir að hafa of­metnast ör­lítið í upp­hafi verk­efnisins.

„Fyrst ætlaði ég að prjóna allt sko en þó mér finnist gaman að prjóna þá er ég ekki ein­hver prjóna­maskína. Þannig að ég sá fyrir mér að það yrði nú ekki mikill kær­leikur ef ég yrði orðin skap­vond og örugg­lega mjög pirrandi,“ segir Bára og skellir upp úr.

Fjölskyldan er mjög samrýnd og hér má sjá Börn Báru saman áður en Einar Darri lést.
Mynd/Aðsend

Snortin af samhug og samstöðu fólks

Brá hún því á það ráð að leita eftir að­stoð vin­kvenna sinna og spurði á sínum sam­fé­lags­miðli hvort hún þekkti ekki ein­hvern sem vildi hjálpa henni við verk­efnið.

„Það varð bara ein­hver sprengja,“ segir Bára og bætir við „það var fullt af fólki sem vildi hjálpa og ég fann hvað það er til mikið af dá­sam­legu fólki sem vill sýna þessu mál­efni sam­hug og sam­stöðu. Ég er alveg ó­trú­lega snortin yfir því og núna er ég komin með á milli tuttugu og þrjá­tíu peysur, fullt af húfum, sokkum og vettlingum.“

Í upp­hafi stefndi Bára að því að gefa flíkurnar um næstu jól en í dag sér hún fram á það að geta gefið þær miklu fyrr.

„Sem er alveg dá­sam­legt. Ég er farin að vona að þetta verði að lang­tíma verk­efni og að ég muni geta haft milli­göngu í því að gefa þessar kær­leiks­gjafir,“ segir hún.

Bára stofnaði síðu á Face­book til þess að halda utan um verk­efnið sem heitir „Kær­leikur í hverri lykkju“ og telur hún í dag rúm­lega 650 manns. Segist hún ekki hafa ná­kvæma tölu á því hversu margir eru að prjóna en að það séu rosa­lega margir.

„Það eina sem ég hef beðið um er að það sé kær­leikur í hverri lykkju og fal­leg hugsun á bak­við prjóna­skapinn.“

Ég þarf ekkert að skammast mín fyrir það hvað kom fyrir barnið mitt.

Eins og fyrr sagði missti Bára son sinn vegna neyslu lyfja og segir hún starf með­ferðar­heimilanna ó­trú­legt. Þrátt fyrir að það sé svaka­lega sorg­legt hversu langur bið­listi það sé í með­ferð þá segist hún líka vilja horfa á það sem vel sé gert.

„Ég held að það sé hver einasta fjöl­skylda sem þekkir ein­hvern sem á við fíkni­sjúk­dóm að ræða, ef ekki innan fjöl­skyldunnar að þá ein­hver vinur og starf þessa með­ferða­stofnanna er ó­trú­legt. Þó það sé langur bið­listi að þá er sem betur fer hægt að hjálpa mörgum. Við verðum líka að horfa á það sem að er vel gert,“ segir Bára sem telur um­ræðuna um fíkni­sjúk­dóminn vera búna að breytast tölu­vert.

„Mér finnst eins og það megi ræða þetta meira núna. Ég þarf ekkert að skammast mín fyrir það hvað kom fyrir barnið mitt og heldur ekki fólk sem segir frá því að maki þeirra glími við fíkni­vanda. Ég held að miðað við önnur lönd séum við komin svo­lítið langt á veg þar. Fólk sem ég hef rætt við til dæmis frá Dan­mörku það segir mér að þar sé bara dregið fyrir gluggana ef það er talað um að ein­hver í fjöl­skyldunni eigi við fíkni­sjúk­dóm að stríða. Þannig að það er alla­vegana gott hjá okkur og þess vegna held ég að það sé svo mikil­vægt að það komi líka svona já­kvætt í kringum þetta. Ég tala nú ekki um að þetta veika fólk finni að við séum að hugsa til þeirra, viljum þeim allt það besta.“

Grét yfir samhugnum

Margir sjálf­boða­liðar hafa tekið þátt í verk­efninu, bæði með því að prjóna flíkur, taka á móti þeim og halda utan um söfnunina. Bára segist aldrei hafa þurft að óska eftir að­stoð þar sem allir hafa boðið fram hjálp sína af sjálfs­dáðum.

„Ég fékk til dæmis um daginn tölvu­póst frá for­stöðu­manni Ljóssins sem er endur­hæfing fyrir krabba­meins­greinda og þeim fannst þetta svo fal­legt verk­efni að þau vildu taka þátt. Það er hópur hjá þeim sem hittist einu sinni í viku að prjóna og nú ætla þau að taka þátt í að prjóna fyrir verk­efnið,“ segir Bára auð­mjúk af þakk­læti.

Hluti af þeim fötum sem þegar hafa safnast fyrir verkefnið.

„Ég viður­kenni það að ég fór nú bara að gráta yfir því að finna hversu mikið af fólki er til­búið til þess að standa með þessu veika fólki. Sama hvort veikindin heita krabba­mein eða fíkni­sjúk­dómur,“ segir hún og bætir við „við í Minningar­sjóðnum höfum síðustu tvö jól gefið flíkur og annað af hlý­hug fyrir jólin og manni þykir svo vænt um að finna hvað fólki þykir vænt um þetta. Að heyra það að þau séu til­búin til þess að Þiggja gjafirnar og að það gefi þeim styrk til þess að sjá að fólki sé ekki sama um það.“

Hægt er að fylgjast með verk­efni Báru með því að fara á síðuna „Kær­leikur í hverri lykkju“ á Face­book og þar er öllum vel­komið að taka þátt.