Hnotubrjóturinn er með eindæmum glæsileg sýning og er blanda af klassískum ballett og nútímalistdansi. Þá er tónlistin einstakt listaverk og kemur öllum í jólaskap.

Það eru Dansgarðurinn, Klassíski listdansskólinn og Óskandi sem taka höndum saman og setja upp sína eigin útgáfu af Hnotubrjótnum, nú í þriðja sinn. Dansararnir eru á mismunandi aldri en flestir stunda nám í grunnnámi og á framhaldsbraut í listdansi og eiga framtíðina fyrir sér sem atvinnufólk í faginu.

Töfraheimur dans og tónlistar

Hnotubrjóturinn er skemmtilegt ævintýri fyrir alla fjölskylduna og stútfullt af töfrum. Sagan hefst í jólaboði Drosselmeyers frænda sem er göldróttur úra- og leikfangasmiður. Hann gefur Klöru, guðdóttur sinni, fallegan hnotubrjót sem er prins í álögum en lifnar við eftir að Klara sigrar músakónginn í bardaga. Klara og prinsinn fara saman inn í töfraheim þar sem snjókorn og englar dansa, og inn í konungsríki úr sykri þar sem sykurplómukonungsfólkið heldur þeim mikla veislu með dansandi nammi­stöfum, marsipani, súkkulaði, piparkökum, sykurplómum, bollakökum og blómaprinsessum.

Dansverkið er unnið eftir sögu E.T.A. Hoffmann, en rómað tónverkið er eftir tónskáldið Pjotr Iljitsj Tsjaíkovskíj.

Sýningarnar í Borgarleikhúsinu hefjast klukkan 16.30 og 19 í dag, þriðjudaginn 22. nóvember, og er hægt að kaupa miða á tix.is