Séra Davíð Þór Jónsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju, forsöngvari og textahöfundur pönkhljómsveitarinnar Austurvígstöðvarnar, brást skjótt við fréttum af Klaustursupptökunum og birti í gær nýjan pönktexta á heimasíðu hljómsveitarinnar.

Lagið heitir Sigmundardrápa og ljóst á hvössum textanum að ljóðmælandinn er hinn góðglaði fyrrverandi forsætisráðherra sem gaf skutilsveinum sínum ekki mikið eftir í kjafthætti og kvenfyrirlitningu örlagadrykkjukvöldið 20.  nóvember.

Fyrsta erindi Sigmundardrápu er eftirfarandi:

Frækinn fór á barinn

fólki með í gleðskap,

gapa tók og geipa,

gjamma mér til skammar,

dónarembu demba,

drulla á fullu yfir

siðað fólk og friðsamt,

fóli mínu ólíkt.

Textanum er fylgt úr hlaði á Facebook-síðu  Austurvígstöðvanna með þeim orðum að þau ætli að gefa út nýja plötu á næsta ári og að hún semji sig sjálf. Fyrsta plata sveitarinnar, Útvarp Satan, kom út í sumar og vakti mikla athygli og deilur, ekki síst vegna lagsins Arnþrúður er full.

Sjá einnig: Hlýtur að vera pláss fyrir einn pönkara í prestastétt

Davíð Þór sagði í viðtali við Fréttablaðið í sumar að ákveði andhóf væri innbyggt í eðli pönksins og textar hans bera þess greinileg merki enda deila þeir hart á til dæmis rasisma, þjóðernishyggju, spillingu og haturorðræðu.

Davíð lét þess einnig getið í sumar að ef Útvarp Satan gengi vel væru meiri líkur en minni á því að sveitin gæfi út aðra plötu og miðað við hvernig ástandið í samfélaginu væri yrði enginn skortur á yrkisefnum.

Síðan Útvarp Satan kom út hefur Davíð Þór þegar ort um heimsókn Piu Kjærsgaard til landsins og sögulegt „ull“ í borgarstjórn og nú bætist drykkjuvísa af Klaustri við þannig að lögn í næstu plötu hrannast upp hjá séranum.

Sigmundardrápa

Frækinn fór á barinn

fólki með í gleðskap,

gapa tók og geipa,

gjamma mér til skammar,

dónarembu demba,

drulla á fullu yfir

siðað fólk og friðsamt,

fóli mínu ólíkt.


Hrossakaupum hossa

hiklaust gerðum mikið,

bitlingum að býtta

bauðst að þætti auðsótt,

kellingar að kalla

klámi í mig rámar.

Þannig enn við þöndum

þokkalega okkur.

 

Hirðar þetta heyrðu,

hlera tóku klókir,

bundu geymt á bandi

blaðrið mitt um aðra,

birtu það í blöðum,

betur svo á neti,

menn svo kenna mættu

mitt innræti og skæting.

 

Sjúkir að mér sækja

siðlausir fjölmiðlar.

Reiður ræð að leita

réttar míns gegn fréttum.

Ekkert má ef ekki

aðeins fara á barinn

klám að rausa rámri

röddu pöddufullur.

D. Þ. J.