Tölvuleikjarisinn Nintendo hefur tilkynnt að ný teiknuð kvikmynd um Super Mario Bros. verði frumsýnd í desember á næsta ári. Leikarinn Chris Pratt á að tala fyrir Mario sjálfan og Anya Taylor-Joy verður Peach, prinsessan sem var alltaf í öðrum kastala í tölvuleiknum forðum. Fram kemur í tilkynningu frá Nintendo að Charlie Day muni tala fyrir Luigi, hinn hávaxna bróður Mario og Jack Black verður illmennið Bowser. Þá hefur Nintendo gefið út að Charles Martinet, sem talað hefur fyrir Mario í tölvuleikjunum, eftir að Mario öðlaðist þann hæfileika á tíunda áratugnum, muni tala fyrir einhvern í myndinni.

Ekki í fyrsta sinn á hvíta tjaldinu

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Super Mario ratar á hvíta tjaldið, það var árið 1993 þegar Bob Hoskins og John Leguizamo léku bræðurna. Þá var Samantha Mathis í hlutverki Daisy, sem er önnur prinsessa úr tölvuleikjaheiminum. Sú mynd fékk vægast sagt slæma dóma og hét Nintendo því að hafa ekki frekari afskipti af kvikmyndagerð. Hugur þeirra hefur hins vegar breyst eftir góðar viðtökur á Detective Pikachu.

Svo má ekki gleyma sjónvarpsþáttunum um Mario bræðurna sem sýndir voru á Stöð 2 á tíunda áratugnum.