Tískusýning Prada sem fram fór á tískuvikunni í Mílanó í febrúar var með þeim síðustu fyrir COVID-19. Núna er búið að fresta eða aflýsa tískuvikunum í London, París, Mílanó og New York sem áttu að vera í júní. Þá eru tískuhúsin að skoða stafrænar lausnir til að geta komið vörum sínum á markað. Sýningarsalir í Mílanó eru tilbúnir til að taka þátt í nýjum stafrænum leiðum.

Kaupendur á tískusýningum eru verðmætir og þeir hika ekki við að eyða miklum peningum. Fólk hættir auðvitað ekki að klæða sig samkvæmt nýjustu tísku en erfitt verður að kynna hana verði engar tískusýningar því þangað koma verslunareigendur og kaupa fyrir næsta ár.

Stígvélin sem hérna eru sýnd virðast til dæmis ákaflega vinsæl um þessar mundir. Talað er um tískubylgju í klossuðum stígvélum. Þegar fræga fólkið klæðir sig þannig hefur það áhrif. Þannig hafa ofurfyrirsæturnar Gigi og Bella Hadid sést í Prada Monolith stígvélum og sömuleiðis Kendall Jenner. Einnig hafa þekktir áhrifavaldar á samfélagsmiðlum spókað sig í Prada. Svörtu leðurstígvélin kosta rúmar 200 þúsund krónur.

Á tískusýningunni í Mílanó kynnti Prada nýja útgáfu af þessum skóm í mismunandi pastellitum en tískumerkið verður litaglatt þegar líður á árið. Mörgum finnst það örugglega skemmtileg tilbreyting en jarðlitir hafa verið algengir undanfarið. En það eru ekki einungis Prada-stígvélin sem eru vinsæl. Svo virðist sem stígvélatíska hafi aldrei verið meiri en einmitt nú.

Kendall Jenner á götu í New York í Monolith-stígvélum frá Prada sem fræga fólkið hefur heillast af undanfarið.
Litirnir eru skemmtilegir, bæði á skóm og töskum.
Nýja stígvélalínan frá Prada kemur í mörgum skemmtilegum litum.
Monolith-stígvélin frá Prada eru úr leðri og kosta rúmar 200.000 kr.