Pósthúsinu í Bændahöllinni við Hagatorg var skellt í lás í hinsta sinn á föstudaginn og þar með er Íslandspóstur ekki lengur með útibú í hinum almennt hátt skrifuðu nágrannapóstnúmerum 101 og 107.

„Þetta eru afspyrnu vond tíðindi,“ segir bókmenntadrottningin og blaðamaðurinn Kolbrún Bergþórsdóttir sem er í hópi marga fastagesta á pósthúsinu sem harma nú hlutinn sinn. „Maður hefði haldið að menn vildu auka póstþjónustu í miðbæ og vesturbæ en markmiðið er greinilega að steindrepa hana,“ segir Kolbrún sem eðli málsins samkvæmt pantar nokkuð mikið að utan og þá ekki síst bækur. En ekki hvað?

„Við sem pöntum bækur og annan varning frá útlöndum munum svo sem ekki telja eftir okkur að rölta upp í Síðumúla til að sækja góssið eða setja jólakortin þar í póst. Við munum þó um leið hugsa hlýlega til gömlu daganna þegar okkar leið eins og við værum velkomin á pósthúsið í hverfinu okkar,“ segir Kolbrún og gefur lítið fyrir þær tæknilegu lausnir sem eiga að leysa pósthúsið hennar af hólmi.

„Ábendingar frá Póstinum um það hversu mikil dásemd það sé að geta sótt sendingar í póstbox virka síðan eins og máttlaust mjálm á þá sem vilja geta gengið inn í pósthús í hverfinu sínu eða næsta nágrenni.“

Pósthúsið sem var lokað á föstudaginn var opnað á jarðhæð Hótels Sögu 2018 en snarpur samdráttur í bréfasendingum á síðustu árum samhliða mikilli fjölgun pakkasendinga réð mestu um þá ákvörðun Póstsins að lúta í gras við Hagatorg í 107.