Leikhópurinn Pörupiltar, sem undanfarin níu ár staðið fyrir sýningunni Kynfræðsla Pörupilta fyrir unglinga, vekur á Facebook-vegg sínum, með upphrópun, athygli á mikilli aukningu í innflutningi á smokkum í faraldrinum.

„Íslendingar hafa verið duglegir að nota smokkinn í covid fríinu!“ tilkynna Pörupiltarnir hátíðlega og árétta að „þetta er alveg satt,“ með vísan í upplýsingar frá Hagstofu Íslands.

Síðan er því haldið til haga á Facebook að fyrir Covid 2019 hafi rúm 4,6 tonn af smokkum verið flutt til landsins. Tonninn hafi síðan orðið 5,9 2020 „og glæsileg 7 tonn árið 2021. Vel gert gröðu Íslendingar!“

Pörupiltarnir telja tölur Hagstofunnar „bara sýna að fræðsla Pörupilta um mikilvægi getnaðarvarna og heilbrigt kynlíf hefur skilað þvílíkum árangri. Meira svona!“

Vel gert gröðu Íslendingar!
Mynd/Aðsend

Alexía Björg Jóhannesdóttir, leikkona og einn Pörupiltanna, segir Kynfræðslu þeirra hafa byrjað sem leiksýning fyrir 9. og 10. bekk grunnskóla fyrir níu árum. „Þá komu nemendur í Borgarleikhúsið og síðar Þjóðleikhúsið að sjá sýninguna sem hafði það markmið frá upphafi að fræða og skemmta.

Sýningin flakkaði svo um allt land í mörg ár og út fyrir landsteinana en þegar Covid skall á var sýningin tekin upp með styrk frá Mennta- og menningarmálaráðuneyti. Hefur því Kynfræðsla Pörupilta síðastliðin tvö ár verið upptaka sem skólar og sveitarfélög hafa keypt aðgang að við mikla lukku.“

Pörupiltar benda þeim skólum eða sveitarfélögum sem hafa áhuga á að fá því að komast í streymishlekk fræðslusýningarinnar á að hafa samband kynfraedsla.porupilta@gmail.com.