Popp á alltaf við og fæstir fá staðist angan af heitu og brakandi fersku poppi. Alkunna er að salt og sætt passar einkar vel saman en í raun passar popp við allt mögulegt í eldhússkápnum. Því er tilvalið að lifa djarft og prófa eitthvað nýtt í kvöld.

Popp með ítölsku ívafi

Blandið saman 6 msk. af rifnum parmesanosti, 2 tsk. af ítölsku kryddi og hálfri tsk. af hvítlaukssalti. Bræðið ⅓ bolla af smjöri, hellið því yfir nýpoppað popp og hrærið saman við. Sáldrið þá ostablöndunni yfir og leyfið að blandast poppinu.

Tex Mex popp

Bætið hálfri teskeið af cumin-fræjum saman við poppmaís og smjör þegar poppað er og hristið aðeins á meðan poppast. Setjið svo poppið í skál, bætið saman við söxuðum cilantro-pipar og kryddið yfir með salti, chilipipardufti, hvítlauksdufti og reyktri papriku sem þið veltið um poppið.

Sætt og saltað popp

Blandið nýpoppuðu poppi saman við bolla af brotnum saltkringlum og bolla af M&M að eigin vali. Bræðið hvítt súkkulaði í vatnsbaði og hellið yfir poppkornsblönduna, eða leyfið því að kólna á smjörpappír og brjótið í bita yfir poppið.

Sykurpúða- og hnetupopp

Blandið poppuðu poppi, litlum sykurpúðum, salthnetum og brotnum saltstöngum saman í stóra skál. Setjið ⅔ bolla sykurs, ½ bolla smjör og ¼ bolla síróp í pott, látið suðu koma upp og hrærið í tvær mínútur. Hellið yfir poppblönduna og veltið varlega um. Kælið á smjörpappír.

Sterkt buffalo-popp

Blandið ⅓ bolla af sterkri buffalo-sósu (eins og notuð er á buffalo-kjúklingavængi) saman við 2 msk. af bræddu smjör og cayenne-pipar á hnífsoddi. Sáldrið yfir poppið og blandið varlega saman. Gott er líka að hella svolítilli Ranch-salatdressingu og auka cayenne-pipar yfir.

Karamellupopp

Bræðið einn og hálfan bolla af smjöri á stórri pönnu. Bætið saman við bolla af sírópi og tveimur og hálfum bolla af púðursykri. Hitið að suðu og látið sjóða í eina mínútu. Takið af hitanum og bætið við teskeið af vanillu. Hellið blöndunni yfir poppað popp og hrærið létt saman. Látið kólna á smjörpappír og losið svo í sundur.

Suðrænt sælupopp

Bræðið saman ⅓ bolla smjör, 2 tsk. karrí og 1 tsk. sykur. Hellið saman við poppað popp og stráið yfir ristuðum kókosflögum, möndlum, rúsínum og salti.

Popp með hnetusmjöri

Hitið einn bolla sykurs og einn bolla hunangs saman á pönnu og leyfið að malla í fimm mínútur. Takið af hitanum og bætið við einum bolla af hnetusmjöri. Hellið poppi saman við og veltið um þar til þakið hnetusmjörsblöndunni. Látið kólna á smjörpappír og losið svo um. Gott er að sáldra brotnum saltkringlum og söxuðu súkkulaði yfir.

Súkkulaðipopp

Bræðið saman súkkulaði í dálæti saman við 2 msk. smjör á lágum hita. Hellið yfir poppað popp og látið kólna á smjörpappír. Losið um og njótið.