Ewa Marcinek er pólskt skáld sem hefur verið búsett á Íslandi síðan 2013. Hún sendi á dögunum frá sér sína fyrstu bók, ljóða- og smásagnasafn, sem ber titilinn Ísland pólerað og á sér langan aðdraganda.

„Ég byrjaði að skrifa bókina árið 2015, tveimur árum eftir að ég kom til Íslands, á vegum námskeiðs í skapandi skrifum. Svo árið 2020 sýndum við leikritið Polishing Iceland í Tjarnarbíói eftir Pálínu Jónsdóttur, byggt á bókinni minni,“ segir Ewa.

Það heyrir til tíðinda að bækur séu fyrst aðlagaðar leiksviðinu áður en þær eru gefnar út á prenti. Ewa segir það hafa verið mjög áhugaverða upplifun fyrir sig sem höfund, en hún beið lengi með að gefa út bókina.

„Ég held að ég hafi verið mjög varkár vegna þess að ég var ekki viss um hver ég var sem höfundur. Ég er Pólverji sem skrifar á ensku en býr á Íslandi. Íslenskan mín er ekki fullkomin svo ég vissi ekki alveg hvernig ég ætti að koma bókinni út og var pínu feimin. Ég held að leikritið hafi virkilega hjálpað mér að öðlast kjarkinn til að leita til Forlagsins.“

Ísland pólerað fjallar um unga pólska konu sem flyst til Íslands eftir að hafa lent í kynferðisofbeldi í heimalandinu. Ewa segir bókina vera að hluta til sjálfsævisögulega en hún dansi þó á mörkum veruleika og skáldskapar.

„Þetta er sjálfsævisöguleg bók en ég er að leika mér með smáatriði og breyta staðreyndum,“ segir Ewa. Hún lýsir bókinni sem „creative nonfiction“, bókmenntagrein sem hefur verið kölluð sannsaga á íslensku. „Það er uppáhaldsleiðin mín til að semja, þegar ég nota lífið mitt en breyti smáatriðunum.“

Kápa/Forlagið

Mörg pólsk skáld á Íslandi

Pólverjar eru langfjölmennasti minnihlutahópurinn á Íslandi en hér búa rúmlega 20.000 manns af pólskum uppruna. Birtingarmyndir Pólverja í íslensku menningarlífi hafa þó ekki endurspeglað þennan fjölda og allt þar til nýlega hefur það heyrt til undantekninga að bækur eftir innflytjendur séu gefnar út hér á landi. Það virðist þó vera að breytast og segist Ewa finna fyrir töluverðum meðbyr með pólsk-íslenskum skáldum og listamönnum um þessar mundir.

„Ég held að bæði íslenskt þjóðfélag og pólska samfélagið hér á landi hafi þurft að koma saman á réttu augnabliki. Rétt eins og hjá mér, þá var bókin mín tilbúin svo lengi en ég var það ekki sjálf. Núna er það að gerast og við erum að sjá mögnuð pólsk skáld koma upp eins og Mao Alheimsdóttur og Jakub Stachowiak,“ segir Ewa.

Mundirðu segja að það væri runnið upp pólskt bókmenntavor á Íslandi?

„Já, ég elska þessa hugmynd um pólskt vor,“ segir Ewa og hlær.

Ég held að bæði íslenskt þjóðfélag og pólska samfélagið hér á landi hafi þurft að koma saman á réttu augnabliki.

Kona þýðir að deyja á pólsku

Í Ísland pólerað leikur Ewa sér á mörkum nokkurra tungumála, en bókin var upprunalega skrifuð á ensku og þýdd yfir á íslensku af Helgu Soffíu Einarsdóttur.

„Ég held að fyrir mig og marga aðra innflytjendur sem eru að reyna að læra tungumálið sé erfitt hvað tungumálin eru ólík. Pólska er mjög fjarlæg íslensku svo ég hef ekki tengingu við orðin og þarf nánast að smíða sögu fyrir hvert orð til að geta munað það,“ segir Ewa.

Þótt íslenska og pólska séu ólík tungumál þá má finna ýmsar áhugaverðar hliðstæður sem Ewa undirstrikar í ljóðum sínum. Þar má til dæmis nefna orðið kona sem þýðir „að deyja“ á pólsku eða pólska orðið miód sem hljómar eins og Mjódd og þýðir hunang.

„Annað sem ég geri í bókinni er að ég vildi sýna hvernig pólski minnihlutinn notar íslensku í daglegu tali á pólsku. Það eru sum íslensk orð sem við notum og fallbeygjum á pólsku. Þegar við tölum um að taka sér veikindaleyfi þá segjum við til dæmis: wzięłam veikura.“

Ewa segir að þarna sé í raun að verða til ný mállýska pólsku á Íslandi. „Það sýnir bara hvernig þessi tvö tungumál lifa og hrærast saman og jafnvel þótt þau virðist vera aðskilin þá eru í þau í raun mjög náin.“