Nú í kvöld fer fram fyrsta pöbbkvisið, eða barsvarið, á Röntgen við Hverfisgötu, en því stjórnar einn þeirra sem reka staðinn, Steinþór Helgi Arnsteinsson. Hann er enginn aukvisi þegar kemur að spurningakeppnum, enda vann hann Gettu betur með liði Borgarholtsskóla árið 2005. Hann var síðar dómari og samdi spurningar fyrir keppnina í heil fjögur ár, fyrst ásamt Margréti Erlu Maack og seinni tvö árin með Bryndísi Björgvinsdóttur.

Steinþór hefur stundað pöbb­kvis bæjarins í árafjöld. Hann gegndi stundum hlutverki spyrils á Grand Rokk og hélt svo utan um pöbbkvis á skemmtistaðnum sáluga Dolly. Það var því einróma samkomulag þeirra sem eiga og reka Röntgen að Steinþór Helgi sæi um fyrsta pöbb­kvisið.

Fyrst og fremst skemmtiefni

„Ég hef verið mjög reglulega óreglulega með pöbbkvis. Á Grand Rokk í gamla daga og Húrra oft líka. Svo hef ég náttúrulega verið viðloðandi Gettu betur frá því í framhaldsskóla,“ segir Steinþór Helgi.

Hann segir það að semja spurningar og halda utan um pöbbkvis vera ákveðið listform.

„Það að setjast niður og reyna að setja saman svona spurningar, það er já, ákveðið listform. Þetta er náttúrulega fyrst og fremst skemmtiefni.“

Hann segir að pöbbkvisið á Röntgen vera með nokkuð klassísku sniði en þema kvöldsins í kvöld er einfaldlega djammið.

„Við reynum jú eitthvað að krydda upp á formið. Þemað er djammið, en notkun orðsins er í mjög víðum skilningi. Framvinda mannkyns- og menningarsögunnar hefur ráðist af tilviljunarkenndum viðburðum sem hafa átt sér stað á djamminu. Það mun ekkert saka samt að vita svona helstu grundvallarhluti um íslenska djammið. Ég mun samt alveg ferðast um víðan völl í spurningum mínum en þetta verður svona stefið í gegn,“ segir Steinþór Helgi.

Þeir alfróðustu vinna ekki alltaf

Hann segir ekkert neglt niður um hve oft pöbbkvisið verði haldið, en stefnan sé að hafa það í það minnsta einu sinni í mánuði.

„Við erum enn að móta þetta. Svo er planið að reyna að fá einhverjar kanónur til þess að vera með okkur. Það var svona smá krafa meðeigenda minna að ég sæi um fyrsta kvöldið, ekkert mál að verða við því kalli.“

Hann segir þemað eiga vel við.

„Já, það helst vel í hendur við pöbbkvis, djammið. Þetta snýst náttúruleg smá um að vera blekaður, helst að enda í blakkáti,“ segir hann og hlær. „Nei, nei, það ætti bara að hjálpa fólki. Það eru ekki endilega þeir alfróðustu sem vinna. Hinir djömmuðu eiga líka séns, alveg eins og í lífinu,“ segir Steinþór Helgi.

Pöbbkvisið fer fram á efri hæð Röntgen við Hverfisgötu 12. Tveir eru í hverju liði og vegleg verðlaun í boði.