Tónlistarmaðurinn Humi segir vinnuna við plötuna Hlemmur, sem hann gaf út í gær, hafa hafist þegar hann byrjaði að spila tónlist fyrir mörgum árum. „Tónlist hefur alltaf fylgt geðhvarfasýkinni, en ég hef notað hana til að stilla mig af,“ segir hann.

Humi hefur á síðustu árum talað fyrir opinni umræðu um geðhvörf og lýst eigin reynslu opinberlega, til dæmis í átaksverkefni geðfræðslufélagsins Hugrúnar fyrir nokkrum árum.

Alls konar líðan í lögum

„Síðustu mánuði hef ég verið í frekar fínu jafnvægi,“ segir Humi og bendir á að skemmtilegt sé að skoða tónlistina út frá því hvar í ferlinu hún er samin. „Þetta er samansafn af lögum sem ég get samsamað ákveðnu tímabili. Ég sem um ástandið þegar ég er manískur, þegar ég kem upp úr lægð og líka þegar ég er hálfur í kafi, að mara.“

Geðveikin í hversdeginum

Humi svarar því játandi að útgáfa plötu um geðhvarfasýki sé aktívismi. „Algjörlega. Ég tók ákvörðun um að fara aðra leið en oft áður. Við tölum oft um geðveikina sem svo dramatíska baráttu. Við tölum bara um hápunktana og lægstu lægðirnar. Það er skiljanlegt að við byrjum þar. En þessi plata fjallar um fegurðina sem fylgir því að vera veikur á geði í hversdeginum.“

Humi útskýrir að hann hafi lengi langað að fjalla um geðhvörf frá þessu sjónarhorni. „En ég er ekki rithöfundur, ég er tónlistarmaður. Mig langar að sýna hvernig ég tekst á við lífið þegar það er tiltölulega normalt – hvað er normalt? En já, þegar við erum í jafnvægi.“

Hann segir að geðveiki hans birtist ekki bara í háum toppum eða djúpum lægðum, heldur einnig í litlum sveiflum og blæbrigðum. „Það er alls konar sem gerist í þessum litlu sveiflum, kostir sem ég fæ með því að vera veikur á geði, sem ég get nýtt í svona lagað. Það er þetta sem mig langar að fjalla um.“

Orðalaus textasmíð

Humi leikur sjálfur á öll hljóðfærin á plötunni. „Þetta er allt samið í litlu stúdíói heima hjá mér og svo er eitt lagið tekið upp í Óháða söfnuðinum. Ég tek þetta upp og syng sjálfur.“

Þó að sum lögin á plötunni séu sungin eru fá eða engin orð, að sögn Huma, ekki í rökrænu samhengi. „Það er mjög meðvitað. Ástæðan er, að þegar ég er veikur get ég aldrei sett hlutina í orð. Konan mín spyr hvernig mér líði, og þá get ég bara lýst einhverri áferð. Að það sé að sjóða í potti og suðan ekki komin upp. Að ég sé loðinn að innan.“ Hann ætlar plötunni að tjá þessa áferð frekar en að tjá líðanina beint í textasmíð.

Með leyfi forseta

Humi er tveggja barna faðir og kennir stærðfræði á unglingastigi í Háteigsskóla.

„Tónlistin er aukabúgrein og það er dásamlegt að geta stillt það af, að vera að kenna 150 krökkum og geta líka sinnt því að semja og spila tónlist. Það gefur lífinu lit.“

Hann segir síðasta lagið á plötunni innihalda „sampl“ frá Guðna forseta. „Ég fékk að nota röddina hans, þar sem hann er að tala um að hann hati ananas á pitsu. Ég á mjög skemmtileg tölvupóstsamskipti við forsetaembættið um hvort ég megi gefa þetta lag út, eða ekki,“ segir Humi. „Það er gaman að fá leyfi frá forsetanum til að gefa út plötu.“