„Fyrst þegar ég kom hingað fyrir nokkrum árum vissi ég einfaldlega að ég myndi elska Ísland. Þegar ég komst að því að Reykjavíkurborg byði rithöfundum að búa í Gröndalshúsi ákvað ég að koma og skrifa bókina hér. Það var samt engin Íslandstenging þegar ég lagði af stað með bókina. Hún kom síðar,“ segir verðlaunarithöfundurinn og prófessorinn Evan Fallenberg sem hélt af landi brott á fimmtudag eftir mánaðardvöl hér á landi.

Evan er að skrifa sína fjórðu skáldsögu og án þess að gefa of mikið upp segir hann að bókin snúist um atvik sem gerist í Grímsey. Afar fáar erlendar bækur eru með Grímsey sem miðdepil sögunnar, en allt þetta fæddist í heita pottinum. Hvar annars staðar?

Leiðsögumaðurinn Draupnir Rúnar Draupnisson sagði honum frá eynni í heita pottinum og staðurinn, fólkið og staðsetningin fór aldrei úr hugmyndabanka Evans. „Eins og með nánast alla sem ég hef kynnst hér á Íslandi kynntist ég Draupni í sundlauginni. Hann fer að tala um þessa ótrúlegu eyju og stundum er það þannig að staðir eða hugmyndir neita einfaldlega að yfirgefa hugann.

Grímsey er staður töfra og þar gerast atvik í nýjustu skáldsögu rithöfundarins Evans Fallenberg. Hann varði tveimur dögum í eynni.
Fréttablaðið/Auðunn Níelsson

Ég var að byrja á skáldsögu og það var engin Íslandstenging. En allt í einu röðuðust stjörnurnar þannig að einn karakterinn fékk áhuga á Íslendingasögunum þegar hann var ungur drengur. Hann hoppar upp í flugvél til Íslands og endar í Grímsey.

Árum síðar, út af því sem gerist í Grímsey sem ég mun ekki fara nánar út í, fetar annar karakter í bókinni sömu slóð og vill sjá hvað gerðist. Og þetta bara einhvern veginn small og varð svo áreynslulaust.“

Hann segir að hann hafi átt ótrúlega tvo daga í Grímsey. Fólkið, landslagið og sólarlagið hafi heillað hann upp úr skónum. „Ég vildi helst ekki fara,“ segir hann. „Þetta er ekki saga um Grímsey, en það byggir eiginlega allt á því sem gerðist í eynni.“

Fyrsta bók Evans, Light Fell, hlaut fjölmörg verðlaun innan hinsegin samfélagsins. Önnur skáldsaga hans When We Danced on Water kom út 2011 og The Parting Gift kom út 2018. Þá hefur hann þýtt fjölmargar ísraelskar bækur yfir á ensku.