Flugfélagið Play tekur nútímalegan snúning á búninga flugliða og kveðja sokkabuxur og hælaskó. Hjónin Kolbrún Petrea Gunnarsdóttir og Gunni Hilmarsson hönnuðu fatalínuna og lögðu áherslu á þægindi og stíl.

„Það var okkur Kollu svo sannarlega mikill heiður og fyrst og fremst ánægja að fá að hanna PLAY fatalínuna,“ skrifar Gunni á Facebook síðu sinni. „Þetta er ný nálgun og tímabærar breytingar í flugheiminum.“

Það hefur lengi verið gagnrýnt að flugfreyjur séu skikkaðar í hælaskó í löngum flugum og skyldaðar til að bera farða og setja upp hár sitt. Í línu þeirra Kollu og Gunna eru öll kyn í strigaskóm og eru ýmsar útfærslur á búningnum líkt og sjá má hér að neðan.