Ný­stofnað Akur­eyrar­fé­lag Flokks fólksins kennir sumar­fögnuð sinn í Lysti­garðinum á Akur­eyri á sunnu­daginn við Í sól og sumar­yl þannig að við hæfi þótti að fá Bjarka Tryggva­son til að slá botninn í gleðina með því að syngja sam­nefnt lag sem hann gerði ó­dauð­legt fyrir sléttri hálfri öld.

„Við erum einu sinni búin að fresta vegna veðurs en við erum sum­sé núna bara að boða sól og sumar­yl í víðasta sam­hengi,“ segir Jakob Frí­mann Magnús­son, þing­maður Flokks fólksins í Norð­austur­kjör­dæmi, þegar hann er spurður hvort sumarið sem er að líða, og þá um leið þessi fögnuður, geti yfir­leitt staðið undir jafn sól­ríkri yfir­skrift.

„Og það sem meira er, er að þegar þessi yfir­skrift var á­kveðin og Bjarki Tryggva­son fenginn til að syngja á sam­komunni, var okkur alls­endis ó­kunnugt um það að lagið varð til í Lysti­garðinum á Akur­eyri,“ segir Jakob og vísar í ævi­sögu höfundarins, Gylfa Ægis­sonar, sem Sóli Hólm skráði.

„Þannig var það nú bara og lagið mun ganga í endur­nýjun líf­daga þar sem það varð til núna á sunnu­dag, á þessum al­mennt veður­sæla stað.“

Hefur neitað í ára­tugi

„Hann plataði mig í það en ég hef nú alltaf sagt nei við þessu í ára­tugi, sko. Hann er gamall kunningi þannig að það er allt í góðu og ég ætlaði ein­mitt að vera á Akur­eyri á sunnu­daginn þannig að maður kíkir á þetta,“ segir Bjarni sem söng upp­runa­leg út­gáfu lagsins með hljóm­sveit Ingi­mars Ey­dal 1972.

„Ég þarf nú á­byggi­lega eitt­hvað að líta á hann,“ heldur Bjarki á­fram þegar hann er spurður hvort hann muni texta lagsins allan. „Við höfum ekkert æft eða neitt þannig. Ég bara mæti þarna og tek lagið,“ segir Bjarki um það sem hlýtur, að öðru ó­löstuðu, að mega teljast há­punktur gleðinnar.

„Þarna er líka verið að boða sólina og sumar­ylinn dá­lítið með tákn­rænum hætti í ljósi þess að and­legi leið­togi Flokks fólksins á Akur­eyri, Brynjólfur Ingvars­son, átt­ræður læknir sem vann glæsi­legan sigur, er nú sestur í bæjar­stjórn á­samt ýmsum öðrum,“ segir Jakob þegar hann færir frekari rök fyrir sam­komunni sem nýi odd­vitinn mun bæði setja og stjórna.

Jakob Frímann segist ekki hafa vitað að lagið Í sól og sumaryl hafi orðið til í Lystigarðinum á Akureyri.
Fréttablaðið/Anton

„Ég hef per­sónu­lega aldrei séð eða heyrt Bjarka Tryggva­son flytja þetta lag“

-Jakob Frímann Magnússon

Leið­toga­sópran

„Svo búum við ansi vel að söng­konu, mjög björtum sópran frá Ólafs­firði sem barðist til mennta á miðjum aldri í bæði lög­fræðum og stjórn­mála­fræðum, stofnaði flokk og er leið­togi Flokks fólksins, en for­maðurinn Inga Sæ­land ætlar að syngja líka,“ segir Jakob og spáir því að Ég er kominn heim verði meðal þeirra laga sem Inga muni taka.

„Bjarki náttúr­lega býr í Reykja­vík þannig að hann ferðast norður yfir heiðar sér­stak­lega til að boða sól og sumar­yl í gömlu heima­byggðina,“ heldur Jakob á­fram þegar hann er spurður hvort hann hafi þurft að beita söng­varann miklum for­tölum.

Já!

„Ja, sko ræða mín til Bjarka hófst með þeim hætti að í sömu götu og markar Lysti­garðinn vestan­vert barði ég hann augum fyrsta sinni um borð í A 4, bif­reið afa míns, þegar A 49, vængjaður Chevro­let frá „ear­ly six­ties“ var á undan okkur upp Þórunnar­strætið.

Þar aftur í var einkar fal­legt par, hrokkin­hærður ungur maður og ljós­hærð stúlka sem manni sýndist við fyrstu sýn vera Brigitte Bar­dot. En reyndist vera æsku­ást, síðar eigin­kona og barns­móðir Bjarka Tryggva­sonar, Mollí sem svo var nefnd.

Þarna voru þau að kyssast og knús­ast í aftur­sætinu og þessi upp­rifjun bræddi Bjarka Tryggva­son með þeim hætti að það stóð ekki á neinu svari þegar erindinu var stunið upp. Það var tveggja stafa orðið já. Plús upp­hrópunar­merki. Ég mæti!“ segir Jakob.

„Ég hef per­sónu­lega aldrei séð eða heyrt Bjarka Tryggva­son flytja þetta lag og hlakka bara mikið til og ég held að svo sé um fleiri,“ segir Jakob og fyrir þau sem deila eftir­væntingunni með honum er rétt að geta þess að gleðin hefst klukkan 15 á sunnu­daginn í Lysti­garðinum.