Kristína Aðalsteinsdóttir verkefna- og sýningarstjóri, segir lesendum Fréttablaðsins frá listinni sem breytti lífi hennar. Kristína starfar hjá listagalleríinu BERG Contemporary og segir hún plötuna The Score með hljómsveitinni Fugees hafa haft mikil áhrif á sig.
„Ég var sjö ára þegar ég heyrði í Lauryn Hill syngja í fyrsta sinn í þeirri mætu mynd Sister Act 2, og mér fannst líkt og einhver hefði opnað fyrir nýja vídd í höfðinu á mér. Ég man enn þá eftir því að fara í Japis, ná ekki upp að afgreiðsluborðinu, en borga með átta ára afmælispeningum mínum fyrir það sem átti eftir að verða uppáhalds platan mín þá, og er enn: The Score með The Fugees.
Ég starfa innan myndlistar, svo ég gæti kannski auðveldlega nefnt verk eftir Matthew Barney eða Pippilotti Rist sem einhvers konar áhrifavalda í mínu lífi, en þessi plata er sú eina sem ég get fyllilega sagt að hafi breytt mér og mótað mig sem manneskju. Þetta var jú í fyrsta sinn sem ég upplifði listaverk sem andspyrnu, án þess kannski að gera mér fyllilega grein fyrir öllu inntakinu á fyrstu árum áhlustunar.
Hún fjallar um átök og reynsluheim fólks á flótta, samfélagslega meðvitund og endurinnrammar frásagnir innflytjenda, um leið og hún vísar í arfleifð hljómsveitarmeðlima. Henni mætti enn fremur lýsa sem hljóðmynd, með hléum, rispum og sömplum, en ég hafði aldrei heyrt þessu líkt, og ég er sannfærð um að þarna er að finna meginuppsprettu áhuga míns á vídeólist síðar. Ég hef hlustað á plötuna svo oft að ég á hana í nokkrum eintökum, ef það kom rispa keypti ég annað eintak til vara. Ríkisstjórnin mætti til dæmis fá þau lánuð, í þeirri veiku von að inntak plötunnar síist inn hjá þeim þar sem rispurnar hiksta hvað mest.“