Frændurnir segja í samtali við Fréttablaðið að þeir hafi starfað saman sem pródúseratvíeykið Congo Bongo í tvö ár. Þeir voru áður fyrr þekktir sem hulduhljómsveitin Kajak, sem hafði verið starfandi frá árinu 2012.

„Við ákváðum að breyta um nafn á tvíeykinu okkar en við höfðum alltaf verið að nota nafnið Congo Bongo undir öll þau verkefni sem við höfum tekið að okkur í tónsetningu. Við höfum lengi sérhæft okkur í tónsetningu meðfram því að gefa út frumsamið efni. Við höfum unnið verkefni í tónsetningu og samið tónlist í sjónvarpsauglýsingar, þætti, stuttmyndir, heimildarmyndir, kynningarefni, vefauglýsingar og barnaefni, bæði hérlendis og erlendis. Okkur þótti alltaf vænt um nafnið Congo Bongo. Það er grípandi, grafískt, lýsir tónlistinni okkar, er auðvelt að muna og rímar í þokkabót. Við höfðum ákveðna þörf og löngun til þess að hefja nýtt upphaf undir nýju nafni. Merkingin sem nafnið Congo Bongo hefur fyrir okkur er frelsi til að skapa óháð skoðunum annarra, með því að kanna hver takmörk ímyndunaraflsins eru,“ segir Sigurmon.

Tónleikar um leið og má

Hljómsveitin stefnir að því að halda útgáfutónleika um leið og aðstæður leyfa.

„Við ákváðum eftir að við sendum Origins út til dreifingaraðilans okkar að við þyrftum að spýta í lófana og finna leið til að spila tónlistina okkar live með hljómsveit, án þess að nota playback. Við fengum til liðs við okkur hljóðgervlaguðinn Birgi Þórisson og trommugoðið Þorvald Kára Ingveldarson. Tónlistin okkar er jarðbundin og yfirleitt með drífandi frumbyggjatakti þannig að okkur fannst tilvalið að taka tónlistina upp á hærra plan með fullskipaðri hljómsveit. Enda hafði það verið draumur okkar lengi. Draumur sem er nú loks að rætast,“ segir Hreinn.

„Það hefur samt verið ákveðin áskorun að ná að flytja allt „live“ því maður hefur mun meira svigrúm að útsetja í tölvunni. Við hefðum samt ekki getað beðið um betri menn til að leysa þetta púsluspil með okkur enda eru hlutirnir allir að smella núna og rétt fyrir sumarið í þokkabót. Við lofum einstakri upplifun og andrúmslofti og mikilli tónleikagleði frá stuðlagasveitinni Congo Bongo í sumar,“ bætir Sigurmon við.

Hljómsveitina skipa frændurnir Sigurmon Hartmann Sigurðsson og Hreinn Elíasson.

Frændurnir segjast upphaflega hafa tengst í tónlistinni út frá sameiginlegum áhuga á grunge-tónlist og eyðimerkurrokki og þráhyggju fyrir sjaldgæfum upptökum með hljómsveitinni Nirvana. Aðspurðir hvort áhrifa frá Nirvana gæti á nýju plötunni segja þeir að þau séu, þó svo að þau séu ekki beint augljós, enda hafði tónlist Nirvana afar mótandi áhrif á þá báða sem tónlistarmenn.

„Kurt Cobain söngvari Nirvana lýsti fyrirbærinu tónlist sem frelsinu til að segja, gera og spila það sem hann vildi, sem eru vísdómsorð sem eru okkur heilög enn þann daginn í dag. Það var eitthvað svo ósvikið við tónlistina frá þessum tíma, ósvikinn heiðarleiki sem sýndi hið mannlega eins og það er, sem mun vonandi koma með come-back á næstu árum,“ segir Hreinn.

Þeir Hrafn og Sigurmon semja, framleiða, hljóðblanda og hljóðjafna alla tónlistina sína sjálfir.

„Ástæðan fyrir því er hreinlega sú að okkur finnst allt ferlið frá a til ö svo ótrúlega skemmtilegt og lærdómsríkt. Að okkar mati helst allt ferlið í hendur. Við vitum hvernig á að ná fram karakternum sem við viljum ná fram í tónlistinni okkar jafnvel þótt við höfum ekki dýrustu og fínustu tólin til þess. Það hefur að minnsta kosti enginn gómað okkur enn,“ segir Sigurmon.

Sumarplatan í ár

Frændurnir lýsa tónlistinni á Origins sem 80’s-skotnu sólarpoppi, þeir segjast vera miklir sólardrengir og elska sumarið, rétt eins og flestir Íslendingar.

„Lögin á Origins voru mörg sérstaklega samin í þeim tilgangi að koma okkur sjálfum í gegnum köldu vetrarmánuðina og verma hjartað sífellt haldandi í vonina um hlýrri tíma fram undan,“ segir Sigurmon og Hreinn tekur undir það.

„Vonandi taka landsmenn vel í plötuna okkar. Við sköpum ekki tónlist bara fyrir okkur sjálfa heldur viljum við líka gefa af okkur og tengjast öðru fólki í gegnum hana. Það má segja að þema Origins sé ljós og myrkur, andstæður sem við Íslendingar þekkjum svo vel. Við erum sannfærðir um að Origins myndi henta afar vel í ævintýraferðir landsmanna um fallega landið okkar í sumar.“

Hvað er í vændum hjá Congo Bongo?

Það hefur verið mikil sköpun í gangi hjá okkur í hljóðverinu undanfarið ár og við hyggjumst gefa út nýtt efni sem hefur verið í smiðjunni á komandi mánuðum og spila á tónleikum víðs vegar um landið þegar viðrar vel til veirunnar. Við höldum í vonina og trúum því að það séu bjartir tímar fram undan. Heimurinn er okkar!“