Á morgun fer fram konunglegt brúðkaup í Windsor kastala í Bretlandi þegar hjónaleysin Eugenie prinsessa, barnabarn Elísabetar drottningar, og unnusti hennar auðjöfurinn Jack Brooksbank láta gefa sig saman. Er brúðkaupið talið verða í smærra í sniðum en fyrra konunglega brúðkaup ársins, sem milljónir fylgdust með í beinni útsendingu en í þetta skiptið verða konungssinnar að sætta sig við útvarpssendingu. 

Lítill spenningur fyrir öðru konunglega brúðkaupi ársins

Einungis örfáir mánuðir eru síðan Harry Bretaprins og Megan Markle gengu í það heilaga í sömu kapellu við Windstor kastala. Fylltust þá stræti litla bæjarins Berkshire, sem stendur nærri kastalanum, af æstum aðdáendum, þúsundir stóðu við girðingar til þess að reyna að sjá brúðhjónin og milljónir fylgdust með athöfninni í beinni útsendingu.

Nú fimm mánuðum síðar er meiri ró yfir litla bænum og segja bæjarbúar ekki vera sami spenningurinn fyrir öðru konunglega brúðkaupi ársins. „Það eru allir svolítið komnir yfir þetta,“ segir Alice , sem býr í bænum Berkshire, í samtali við Breska ríkisútvarpið. 

Bærinn hefur hvorki fyllst af gjafavöru með brosandi myndum af brúðhjónunum, né af æstum aðdáendum konungsfjölskyldunnar. „Það varð allt brjálað þegar Harry gifti sig,“ er haft eftir Kelly Carpenter, öðrum íbúa bæjarins, „en enginn nennir þessu núna. Ég held að enginn viti hver hún er.“

Trúlofuðu sig í Níkaragva

Eugenie Victoria Helena prinsessa er ein af mörgum barnabörnum Elísabetar drottningar og því náfrænka Harry og Williams. Hún er sú níunda í röðinni að krúninni og er dóttir Andrew, þriðja barns Elísabetar drottningar og Filipps manns hennar. 

Eugiene og unnusti hennar Jack Brooksbank hafa verið par um árabil en trúlofuðu sig í Níkaragva í janúar síðastliðnum. Þau munu festa ráð sitt í sömu kapellu og Harry og Megan og eiga brúðkaupin ýmislegt annað sameiginlegt. Líkt og í brúðkaupinu í maí verður hjónabandinu fagnað með tveimur veislum. Drottningin mun skála í kampavíni með brúðhjónunum og öðrum helstu fyrirmönnum í Winstor kastala um kvöldið verður svo heljarinnar skrall þegar fjögur hundruð gestum verður boðið í teiti. 

Plastlaust brúðkaup í vændum

Enn er margt óljóst hvað varðar brúðkaupið, enda ríkir ekki sama fjölmiðlafár og fyrr á árinu þegar fjölmiðlar fylgdust náið með hverri einustu hreyfingu brúðhjónanna frá því Harry fór á skeljarnar. Í erlendum fjölmiðlum hefur þó verið greint frá ýmsu, til að mynda að brúðkaupið verði plastlaust að ósk brúðarinnar, sem er mikil umhverfisverndarsinni.

Þó brúðkaupið sé sagt vera smærra í sniðum er meira en 1000 óbreyttum borgurum boðið að koma og fylgjast með við kirkjuna. Þá er gert ráð fyrir því að ýmsar stjörnur muni sækja brúðkaupið, en prinsessan er til að mynda góð vinkonu söngkonunnar Ellie Goulding, fyrirsætunnar Cöru  og fleiri áhrifavalda. 

Að lokum má ekki gleyma kökunni, sem er sögð vera rauð flauels kaka, bökuð af þekktum bakara í >London. Kakan verður að sjálfsögðu í haustlitum, í stíl við dagsetninguna.