Rósa Kristinsdóttir er ein þriggja vinkvenna sem standa að baki fjármálafræðsluvettvanginum Fortuna Invest. Þær gáfu nýverið út samnefnda bók með það fyrir augum að fræða lesendur um fjármál og fjárfestingar á áhugaverðan og aðgengilegan hátt.

„Áhuginn hefur farið fram úr okkar björtustu vonum. Þegar við fengum hugmyndina að því að skrifa þessa bók könnuðum við markaðinn og miðað við okkar rannsóknir þá er síðasta bók sem er skrifuð í svipuðum stíl jafngömul og við,“ segir hin 28 ára gamla Rósa.

„Þannig að við töldum að það væri þörf á því að uppfæra þessar upplýsingar.“

Vinkonurnar eru jafnframt með samnefnda Instagram-síðu þangað sem þær dæla fróðleik um fjármál, hlutabréf og aðrar fjárfestingar. Þar vakti mikla athygli færsla um skort á kennslu í fjármálalæsi í grunnskólum og plássið sem fornbókmenntirnar fá þar, með Gísla sögu Súrssonar í fremstu víglínu.

Samanburðurinn kom við kaunin á mörgum og netverjar tístu um málið í gríð og erg.

Rósa viðurkennir að athyglin hafi reynst ágæt.

„Markmiðið var að vekja athygli á þörfinni á auknu fjármálalæsi og það var gaman að sjá báðar hliðar. Auðvitað voru einhverjir sammála og einhverjir mjög ósammála,“ segir Rósa, en margir voru mjög sárir fyrir hönd Gísla.

Ekki ætlunin að fella Gísla

„Sem er bara allt í góðu, þetta er að sjálfsögðu ekki spurning um að fella Gísla niður og kenna bara lántökur,“ segir Rósa hlæjandi. Markmiðið sé að benda fólki á að skilningur á fjármálum er ekki óyfirstíganleg hindrun.

„Því að mörgum finnst það óyfirstíganlegt að kynna sér þessi mál, sem er alls ekki skrítið því upplýsingarnar eru á víð og dreif og ekki allt lagað að íslenskum aðstæðum.“

Rósa segir Instagram-síðuna lykilinn að fræðsluvettvangi Fortuna. „Þar koma upplýsingarnar til þín á meðan þú skrollar og ef þetta birtist jafnt og þétt fyrir framan þig þá ertu kannski líklegri til að leita sjálfur að fréttum, taka umræðu eða samtal um þetta, því við trúum svo mikið á það að þetta sé framtíðarverkefni. Því þetta snýst ekki bara um að kaupa eitt verðbréf heldur snýst þetta um að byggja upp góða þekkingu, með fram þeirri fjárhæð sem þú leggur í fjárfestingar.“

Hvatt til sparnaðar

Í bókinni er meðal annars að finna sparnaðarráð og lesendur hvattir til að leggja fyrir. Þegar Rósa er spurð hvort það gangi ekki þvert gegn hinu alíslenska „þetta reddast“ hugarfari svarar hún hlæjandi:

„Það að leggja fyrir og hugsa til framtíðar þarf einmitt alls ekki að vera allt eða ekkert. Þegar ég hugsa sjálf til baka til þess þegar maður ákvað að spara, eða fara í átak, þá var maður alltaf svo ýktur.

Maður ætlaði sér ekki að ná yfirsýn yfir fjármálin, setja sér einhver markmið, heldur ætlaði maður bara að hætta að gera allt. Alltaf að vera með nesti og maður ætlaði aldrei aftur í bíó. En þetta er langtímaverkefni og til þess að springa ekki á limminu og gefast upp þarftu að hafa raunhæf markmið og þú þarft líka að hafa gaman.“