Kaja smakkaði Piparkökulatte í fyrsta skipti á erlendri grundu. „Fyrir fjórum árum fór ég til Lund að heimsækja son min sem var þar við nám. Yndisleg borg í alla staði, róleg og falleg til að njóta. Lund hefur að geyma alls konar kaffihús og á einu slíku fékk ég að smakka Piparkökulatte í fyrsta skipti, dísætt og algjört gúmmelaði. Þegar heim var komið var nokkuð ljóst að þennan drykk þyrfti ég að bjóða upp á og úr varð okkar útgáfa af Piparkökulatte, aðeins minna sætur og meira kryddaður,“ segir Kaja og hefur slegið í gegn með útgáfu sinni af Piparkökulatte.

Kaja gerði enn betur og pantaði sérstakar krúsir til að bera fram hið gómsæta og heitfenga Piparkökulatte í aðventunni. „Í ár keypti ég krúsir af Tove Nove í Noregi en hún er gift frænda mínum en hann er systursonur ömmu minnar. En Kaju nafnið kemur einmitt frá Noregi og er gælu nafn fyrir Karen. En nóg um það ég féll gjörsamlega fyrir myndunum sem Tove er að mála á krúsir svo það var ekkert annað en að fá þær til landsins. Svo sænska Piparkökulatteið er borið fram í norskum krúsum og verður vart betra,“segir Kaja og er hin ánægðasta með heildarútkomuna. Nú er bara að gera ferð uppá Skaga og fá sér alvöru Piparkökulatte sem kemur með bragðið og ilminn af jólunum.