„Þetta er algjör stemning en smá súrrealískt. Covid er auðvitað sameiginlegt verkefni samfélagsins og mér fannst nú bara vera kominn tími til að leggja mitt af mörkum í baráttunni,“ segir stjórnmálafræðineminn og ritari Samfylkingarinnar, Alexandra Ýr van Erven. Alexandra starfar einnig við að reka hina alræmdu sýnatökupinna upp í nasirnar á fólki.

Hún segir samlíkingu faraldursins við stríðsástand hafa verið henni hugleikna. „Þá er mikilvægt að allir leggi hönd á plóg og leggi sitt af mörkum og mér finnst það vel við hæfi.

„Ég heyrði að þau vantaði sárlega starfsfólk á Suðurlandsbraut, hafði loksins tíma til að bæta við mig smá aukavinnu og finnst frábært að geta hjálpað til í baráttunni við þessa veiru,“ segir Alexandra. Hún segist geta mælt með starfinu og er þakklát frábærri þjálfun heilbrigðisstarfsmanna.

Lítil dramatík

Spurð hvort fólk sé almennt stressað fyrir skimun segir Alexandra langflesta vera farna að þekkja þetta ágætlega. „En, jú jú, það eru eðlilega margir sem eru ekkert spenntir að fá þennan pinna upp í sig sem er mjög eðlilegt. En heilt yfir er furðulítil dramatík í þessu.“

Hlífðarbúningar og grímur allan daginn venjast furðuvel að sögn Alexöndru.
Aðsend mynd

Hún segist sjálf hafa vanist því hægt og rólega að stinga pinna upp í nefið á fólki. „Það kom mér skemmtilega á óvart hvað fólk hefur misjöfn nef svo það er ekki alltaf sama handbragðið sem virkar hjá öllum. Ég prísa mig alltaf sæla að fá stundum að heyra frá fólki að ég sé einstaklega mjúkhent við þetta, svo ég hlýt að vera að gera eitthvað rétt,“ segir Alexandra hlæjandi.

Börnin erfiðust

Alexandra segir erfiðast að skima börn. „Af því að maður vill auðvitað alls ekki meiða litlu greyin. Þau eru mörg hver samt orðin vön þessu og það hefur komið mér mikið á óvart hversu mörg börn mæta keik í skimun og virðast alveg óhrædd. Þau fá svo aðeins mjórri og styttri pinna sem gerir þetta bærilegra, sem betur fer.“

Hún segir aðspurð það fljótt hafa vanist að vera í hlífðargalla allan daginn. „Ég bjóst við því að þetta yrði fljótt þreytandi en trikkið er greinilega að vera ekki að taka grímuna af sér að óþörfu og setja hana svo upp aftur. Og svo lengi sem að hún er hrein þá tekur maður ekki eftir henni. Andlitsskildirnir eru að vísu aðeins óþægilegri en maður lætur sig hafa það. Ég hef bara verið í hraðprófunum svo það er lukkulega ekki alveg sami búnaður og í PCR-prófunum.“