„Ég lærði förðun í París og vann við það í mörg ár og hef ávallt haft mikinn áhuga á öllu sem við kemur tísku og hönnun. Ég byrjaði mjög snemma að gera fínt í kringum mig,“ segir Þórunn og nýtur þess að stílisera í sumarbústað fjölskyldunnar þessa dagana. „Mér finnst það algjör forréttindi að geta unnið við það sem ég elska að gera. Í dag vinn ég sem stílisti/listrænn stjórnandi hjá Icewear, ásamt því að sinna alls kyns skemmtilegum verkefnum meðfram.“

Þórunn er gift Brandi Gunnarssyni og eiga þau fjögur börn, Aron Högna, Tristan Þór, Birgittu Líf og Leuh Mist, og tvö barnabörn, Vignir Hrafn og Söru Lind. „Mér finnst einstaklega gaman að fá fólkið mitt í mat og er dugleg að prófa eitthvað nýtt, ég get verið tímunum saman í eldhúsinu að undirbúa matinn. Að halda veislu eða afmæli – þá er ég á heimavelli, elska það. Og eflaust fer ég stundum aðeins fram úr sjálfri mér.

Þórunn með dætrunum við veisluborðið. Það væsir ekki um mann í svona flottri veislu úti í náttúrunni. FRÉTTABLAÐIÐ/ÓTTAR

Fara reglulega til Akureyrar og á Síðu í Hörgslandi

Sumrin kalla gjarnan fram ákveðnar tilfinningar og aðrar árstíðir aðrar tilfinningar og athafnir, enda hafa árstíðir misjöfn áhrif á sálarlífið og gjörðir fólks. Þegar Þórunn er innt eftir einni setningu sem lýsi henni best á sumrin stendur ekki á svari: „Hamingjusöm.“

Eruð þið dugleg að ferðast um landið á sumrin?

„Ekki eins dugleg og ég vildi. Þessa dagana eyðum við nánast öllum helgum og okkar frítíma í bústaðnum okkar.“

Hvað heillar þig mest að gera þegar þú ert að ferðast innanlands, vera á hóteli, í sumarbústað, hjólhýsi eða þess háttar gistingu?

„Mér finnst mjög gaman að fara aðeins í nýtt umhverfi og kíkja út á land. Við förum reglulega norður til Akureyrar og gistum þá annaðhvort á hóteli eða í bústað í Vaðlaheiði. Svo er sveitin okkar á Hörgslandi á Síðu, þar er hús sem stórfjölskyldan er búin að eiga síðan ég var barn og þangað er alltaf jafn notalegt að koma.“

Góðar súrdeigssamlokur með avókadó og eggjum, smjördeigs-croissant með skinku og osti, svalandi sumardrykkur með ferskum berjum, ávaxtaspjót og svo er alveg nauðsynlegt að hafa smá eftirrétt með, eins og míní- pönnukökur.

Nauðsynlegt að hafa smá eftirrétt í pikknikk-körfunni

Nú hefur aukist að fólk útbúi pikknikk og taki með sér í ferðalagið hvort sem það eru stuttar eða langar ferðir.

Átt þú pikknikk-körfu eða -tösku?

„Já, ég á pikknikk-tösku sem ég fékk að gjöf fyrir mörgum árum, hef reyndar ekki notað hana mikið.“

En pikknikk-teppi?

„Nei, á ekkert sérstakt en á nokkur sem ég gæti notað í það og passa mjög vel.“

Ertu til í að ljóstra upp þínu uppáhalds nesti fyrir dagsferðina?

„Með krökkunum og barnabörnunum þá væri þetta í körfunni: Góðar súrdeigssamlokur með avókadó og eggjum, smjördeigs-croissant með skinku og osti, svalandi sumardrykkur með ferskum berjum, ávaxtaspjót og svo er alveg nauðsynlegt að hafa smá eftirrétt með, eins og míní- pönnukökur með nutella-súkkulaði, jarðarberjum og rjóma, síðan er gott kaffi alveg ómissandi.“

Fallegu pappadiskarnir, servíetturnar, rörin, pinnarnir, krukkurnar, flöskurnar og blómalengjur eru frá Confetti Sisters og setja fallegt yfirbragð á pikknikk- stundina í sveitinni.

Rómantískt pikknikk með íslenskum jarðarberjum

Ef þú værir að setja saman pikknikk í körfu fyrir rómantíska ferð, hvað væri á óskalistanum?

„Ef ég væri að fara í lautarferð með manninum mínum þá er sérstakur óskalisti til staðar. Ég elska góða osta, hráskinku, súrdeigs-baguette og gott Chardonnay. Síðan yrðu íslensk jarðarber í eftirrétt. Getur ekki klikkað.“

Hvað er ómissandi að taka með í slíka lautarferð?

„Hjá mér væri það teppi, fallegir pappadiskar, glös, servíettur og annað fíneri til að gera smart pikknikk, blautþurrkur og auðvitað góða skapið. Uppáhalds ferðafötin eru svo strigaskór, joggingbuxur og hörskyrta, létt úlpa eða regnjakki.“

Þórunn útbjó fallega pikknikk- stund í sveitinni fyrir okkur og deilir hér með okkur uppskriftunum og umgjörðinni. Svona stundir með vinum og vandamönnum í sveitinni eru dásamlegar og gleðja bæði augu og munn.

Borðið er heimasmíðað úr afgöngum úr pallinum. Það má nota hugmyndaflugið og nýta alla afganga í framkvæmdum til að hanna mubblur og þess háttar sem vantar í sveitina eða garðinn. Boginn er búinn til úr einangrunarröri, frumleg hugmynd þar á ferð.

Súrdeigssamlokur

6 súrdeigsbrauðsneiðar (GK bakarí)

4 linsoðin egg

4 avókadó

1 bréf beikon (gott að grilla það)

Lúxus croissant

3 smjördeigs-croissant /GK bakarí

Havarti-ostur

1 bréf Lúxus skinka

Ávaxtaspjót

4 stykki

1 box íslensk jarðarber

1 stk. banani

½ melóna

3 kíví

Skorið niður í munnbita og þrætt upp á pinna.

Sumardrykkur með hindberjum og mintu

1 l Lime kristall

1 box hindber

1 búnt mintulauf

Blandað saman í könnu og hellt í litlar flöskur.

Míní-pönnukökur með nutella og jarðarberjum

1 box íslensk jarðarber, skorin niður í sneiðar

1 krukka Nutella-súkkulaðismjör

1 flaska pönnukökumix

Öllu raðað saman og pinna stungið í.

Kaffi- og súkkulaðiskyrkrukka

1 box Örnu kaffi- og súkkulaðiskyr

1 box brómber og bláber

1 peli rjómi

1 msk. múslí að eigin vali