Breski fjölmiðlamaðurinn Piers Morgan úthúðar söngkonunni Adele í nýjum pistli sem birtist á breskum fréttamiðlum í gær. Þar útmálar hann söngkonuna sem eigingjarna dramadrottningu. Adele aflýsti nýverið tónleikaröð í Las Vegas með aðeins nokkurra klukkustunda fyrirvara.

Piers Morgan vandar bresku söngkonunni ekki kveðjurnar með orðum sínum í pistli sem birtist í breskum fjölmiðlum í gær: „Adele eyðilagði Guð-veit-hversu-margar draumaferðir fyrir aðdáendum sínum, þegar hún hvarf upp í stjörnugörnina á sér,“ sagði þáttarstjórnandinn.

Teymi Adele úr leik vegna Covid-19

Málið snýr að ákvörðun Adele að aflýsa tönleikaröð í Las Vegas, með minna en sólarhrings fyrirvara. Hin þrjátíu og þriggja ára gamla söngkona sagði frá ákvörðuninni í stuttu myndbandi á Instagram, þar sem hún lýsti því grátandi að tíminn hefði sloppið frá henni vegna tafa í tengslum við heimsfaraldurinn. Hún sagði: „Mér þykir það svo leitt en sýningin er ekki tilbúin. Helmingurinn af teyminu mínu er úr leik vegna Covid og þetta er ómögulegt.“

Adele aflýsti tónleikaröð í Las Vegas með minna en sólarhrings fyrirvara. Ýmsar kenningar eru á kreik um hvað hafi búið að baki.
Mynd/Getty

Piers Morgan gefur lítið fyrir þær afsakanir og segir að frægasti frasi skemmtanabransans sé „The Show Must go on,“ sem snara mætti á ylhýra sem „Áfram með smjörið,“ sem vísar í það að starfsfólk í skemmtanaiðnaði geti ekki látið einkalífið þvælast fyrir sér þegar bransinn sé annars vegar.

Of seint fyrir aðdáendur með flugmiða

Hann segir að ákvörðunin komi allt of seint fyrir þær þúsundir aðdáenda sem hafi ferðast um allan hnöttinn til þess að hlusta á hana syngja.

„Til þess að ganga í svo harðar aðgerðir hlýtur eitthvað ótrúlega svakalegt að hafa átt sér stað, til að setja hina þriggja mánaða löngu dagskrá -Helgar með Adele- á hliðina. Margir miðar seldust á allt að 5000 dollara stykkið,“ skrifar Morgan.

„Hún birti tilfinningaþrungna afsökunarbeiðni á Instagram, grátandi – er hún einhvern tímann ekki grenjandi?- þegar hún sagði að þetta væri allt vegna Covid-19 og tafa á tónleikabúnaði vegna heimsfaraldurs.“

Piers Morgan vísar í fréttasíðuna TMZ, sem hafi eftir starfsmönnum Adele-tónleikanna að þetta hafi komið þeim gríðarlega á óvart og þau skilji ekki hvers vegna hún aflýsti tónleikunum á síðustu stundu.

Segir Adele nota faraldurinn sem afsökun

Þá sagði TV show Extra miðillinn frá því að Adele hafi verið föst í fimm vikna æfingaferli og hafi ekki skoðað aðstöðuna í Las Vegas fyrr en rétt áður en sýningarnar áttu að byrja.

Morgan dregur þá ályktun að Adele sé því að nota heimsfaraldurinn sem afsökun til að hylma yfir það að hún hafi ekki verið nógu vel undirbúin.