Svo virðist sem hinn skoðanaglaði Piers Morgan eigi afturkvæmt í spjallþáttinn Good Morning Britain en Piers greindi frá því að framleiðendur þáttanna hefðu haft samband við hann, í samtali við the Sun.
Líkt og frægt er orðið hætti Piers sem stjórnandi Good Morning Britain í kjölfar þess að Meghan Markle og fleiri kvörtuðu undan ummælum hans, en hann sakaði Meghan um að hafa logið um eigin sjálfsvígshugsanir í viðtali við Opruh Winfrey.
Piers var beðinn um að biðjast opinberlega afsökunar á ummælum sínum en þvertók fyrir það. Yfir 41 þúsund manns sendu sjónvarpsstöðinni ITV kvartanir vegna ummæla hans, þeirra á meðal var Meghan Markle sjálf. Kvörtun hennar var send til yfirmanns stöðvarinnar.
Þrátt fyrir að Piers hafi viðurkennt að hafa mögulega gengið of langt í umfjöllun sinni um þau Meghan og Harry prins hefur hann enn ekki beðið hertogynjuna afsökunar.
Þvert á móti lýsti hann því yfir að það ætti að svipta hjónin konunglegum titlum sínum. „Vegna þess að þau eru að rústa stofnuninni og valda skaða í breska samveldinu, þar sem mörg lönd trúa þessu rasisma kjaftæði,“ ítrekaði Piers.
„Þau eru orðin heimsins mestu fórnarlömb í miðjum faraldri. Það er aumkunarvert. Harry þarf að fara að vaxa úr grasi.“