Írski stór­leikarinn Pi­erce Brosnan, sem þekktur er fyrir leik sinn sem breski njósnari hennar há­tignar James Bond, kíkti í heim­sókn á Könnunar­safnið á Húsa­vík á­samt eigin­konu sinni Keely Shaye Smith í síðustu viku. Ör­lygur Hnefill Ör­lygs­son, safn­stjóri Könnunar­safnsins, lýsti Brosnan sem sönnum herra­manni en leikarinn lék á alls oddi í heim­sókn sinni.

Kumpánlegur Bond


„Hann fór mikið um bæinn og ég held að hann sé bara orðinn fjöl­skyldu­vinur annars hvers Hús­víkings eftir dvölina hérna,“ sagði Ör­lygur í sam­tali við Frétta­blaðið. Hann segir ekki hafa gætt á vott af stjörnu­stælum í Bond. „Hann var mikið að blanda geði og var rosa­lega geðugur og skemmti­legur við alla,“ bætti Ör­lygur við.

Leikarinn var staddur hér á landi við tökur á Euro­vision mynd Will Ferrells en Brosnan mun leika vin­sælasta mann Ís­lands, Eric Ericks­son­g, föður aðal­per­sónunnar í myndinni. Á leið sinni til landsins hafði Brosnan lesið grein um Könnunar­safnið og hafði á­huga á að kynna sér sögu æfinga geim­fara hér á landi. Brosnan lýsti síðan yfir á­huga sínum á að fá að heim­sækja Könnunar­safnið og í kjöl­farið var hringt í Ör­lyg og hann fenginn til að taka á móti honum.

Ör­lygur segir Brosnan hafa verið mjög á­huga­saman um land­könnun og land­könnuði en þegar á hólminn var komið þá heillaðist hann mest af eld­fjalla­sýningu safnsins. „Hann var rosa­lega fróður og talaði nánast eins og jarð­fræðingur um þetta,“ sagði Ör­lygur sem spurði leikarann hvaðan hann hefði hlotið þekkingu sína. „Þá kom í ljós að hann hafði leikið í mynd sem heitir Dante´s Peak fyrir ein­hverjum árum og stúderað eld­fjöll fyrir myndina.“ Í kjöl­farið fékk Brosnan mikinn á­huga á eld­fjalla­fræði.

Brosnan er frægastur fyrir leik sinn í James Bond og Mamma Mia.
Fréttablaðið/Getty

Frægari en geimfararnir

„Við höfum nú verið að taka á móti allskonar fólki hér á safnið til okkar, meðal annars fólki sem hefur gengið á tunglinu en þetta er nú líklega sá frægasti.“ Örlygur leyfði dætrum sínum tveim að vera með í leiðsögninni og höfðu þær gaman að.

„Yngri dóttir mín, sem er rétt orðin tveggja ára, hljóp í minjagripabúðina og vildi gefa honum eitthvað,“ sagði Örlygur og bætti við að hún hafi skynjað einhverja spennu í kringum þennan mann. „Svo kom hún hlaupandi með armband og gaf honum það,“ bætti Örlygur hlægjandi við. Brosnan þakkaði fyrir sig og sendi stúlkunum fingurkoss á leið sinni út af safninu. „Eins og líklega allur heimurinn veit þá er hann mjög sjarmerandi karakter.“

Einstakt safn

Örlygur segir ekki vera mikinn gestagang á Könnunarsafninu þrátt fyrir að safnið hafi vakið mikla athygli á alþjóðavettvangi. „Þrátt fyrir tíðar umfjallanir á miðlum eins og BBC þá er athyglin ekki að skila sér í fleiri gestum þar sem fólk sem les þetta erlendis er mögulega ekki að leggja leið sína til Húsavíkur,“ segir Örlygur.

Nýlega stóð því til að loka safninu vegna fjárhagserfiðleika. „Nú eru hins vegar ýmsir búnir að koma fram sem vilja hjálpa okkur að láta þetta ganga,“ segir Örlygur en hann vonast til að safnið muni lifa góðu lífi um ókomna tíð. „Fjölskylda Neil Armstrong var hérna í síðustu viku og sonur Neil, Mark Armstrong ætlar að koma inn í stjórn safnsins og hjálpa okkur að snúa þessu við. Það eru stórtíðindi fyrir safnið.“ Margar breytingar eru í vændum fyrir safnið ekki er ólíklegt að fleiri stórstjörnur heimsæki safnið á næstunni.

Brosnan og Smith heimsóttu einnig Hvalasafnið á Húsavík.
Mynd/Instagram