Sinfóníuhljómsveit Íslands er á leið í tónleikaferð til Þýskalands og Austurríkis með hljómsveitarstjóra sínum, Daníel Bjarnasyni, og Víkingi Heiðari Ólafssyni píanóleikara. Á tónleikum hljómsveitarinnar í Hörpu í kvöld, fimmtudagskvöld, og föstudagskvöld verða leikin verk sem verða á efnisskránni erlendis, eftir Grieg, Mozart, Sibelius og Daníel Bjarnason.

Sterk viðbrögð

Verk Daníels er píanókonsertinn Processions sem hann samdi fyrir tíu árum fyrir Víking Heiðar sem flutti hann fyrst á Myrkum músíkdögum. Spurður af hverju hann hafi valið að skrifa konsert fyrir Víking Heiðar segir hann: „Það eru ekki margir aðrir sem hefðu komið til greina. Ég lærði á píanó hjá mömmu hans og þannig kynntist ég Víkingi fyrst. Eftir að hafa lært tónsmíðar hér heima lærði ég hljómsveitarstjórnun í Þýskalandi og var með annan fótinn í New York. Um það leyti varð efnahagshrun hér á landi og þá var þessi konsert skrifaður, í búsáhaldabyltingu sem ég fylgdist með að hluta til frá New York en síðan nánast úr stofuglugganum hér á Íslandi. Konsertinn var frumfluttur á Myrkum músíkdögum í miðri búsáhaldabyltingu í febrúar 2009 og viðbrögðin voru mjög sterk. Ég fann að þessi konsert talaði til Íslendinga.

Það var svo mikil þörf fyrir betri fréttir,“ segir Víkingur. „Á þessum tíma voru Myrkir músíkdagar ekki sú hátíð sem hún er í dag hvað vinsældir varðar. Hún var mikil jaðarhátíð en á þessum tónleikum var nær fullur salur og viðtökurnar voru stórkostlegar. Síðan hefur verið mikil eftirspurn eftir þessu verki úti um allan heim. Slíkt gerist ekki alltaf þegar ný tónlist á í hlut, jafnvel þótt hún sé frábær.“

Ríkulegur heimur

Víkingur Heiðar hefur leikið verkið nokkuð oft, víða um heim. „Við Daníel flytjum þetta verk oft saman sem tvíeyki, ég við píanóið og hann sem hljómsveitarstjóri. En svo hafa aðrir frábærir hljómsveitarstjórar líka sóst eftir að flytja verkið og það er líka spennandi. Mér er sérstaklega minnisstæður flutningur sem Daníel stjórnaði fyrir einu og hálfu ári í Toronto með þeirri frábæru hljómsveit Toronto Symphony og svo flutningur með Gustavo Gimeno fyrir tæpu ári í Stokkhólmi með Sænsku útvarpshljómsveitinni sem er ein skemmtilegasta hljómsveit sem hægt er að spila með. Þetta er verk sem maður finnur að virkar á tónleikum.“

Spurður hvað það sé við verkið sem gerir að verkum að fólk tengir svo vel við það segir Víkingur Heiðar: „Það er svo mikil frásögn í því. Allt frá fyrsta slagi erum við stödd í miðpunkti frásagnar, þetta er eins og að vera kominn inn í miðja byltingu eða mitt eldgos, maður kemur inn í eitthvað kraumandi. Píanistinn er mjög mikill sögumaður í verkinu og hljómsveitin skapar ríkulegan heim. Píanóið leiðir frásögnina áfram en á sama tíma er hljómsveitin mjög virk. Hljóðfæraleikurum í hljómsveitum hefur þótt virkilega skemmtilegt að spila verkið. Þetta er ekki eins og stundum er með einleikskonserta að hljóðfæraleikararnir hlakki minna til þeirra en sinfóníanna vegna þess að þar eru þeir í undirleikshlutverki. Það á ekki við hér, þetta er píanósinfónía.“

Nú mun konsertinn hljóma í Þýskalandi og Austurríki og annað íslenskt verk eftir Önnu Þorvaldsdóttur verður einnig á efnisskrá Sinfóníuhljómsveitarinnar. „Ég hef einu sinni áður spilað píanókonsert Daníels í Þýskalandi með útvarpshljómsveitinni í Leipzig árið 2017,“ segir Víkingur Heiðar. „Núna verða tónleikar í Berlín og München, tveimur leiðandi tónlistarborgum.“

Hluti af Íslandshátíð

Í Berlín eru tónleikarnir hluti af mikilli Íslandshátíð þar sem fram koma fjölmargir íslenskir flytjendur og tónskáld. Hátíðin er hugarfóstur Víkings Heiðars sem er staðarlistamaður Konzerthaus í Berlín. „Í Þýskalandi er mikill áhugi á íslenskri menningu og öllu því sem íslenskt er. Það er alltaf gaman að koma fram þar og það verður einstakt að vera með hljómsveitinni í Þýskalandi.“

„Þetta er í fyrsta sinn sem hljómsveitin fer í ferðalag með íslenskan hljómsveitarstjóra og heimsfrægan íslenskan einleikara og hefur íslenska tónlist á efnisskrá. Það segir nokkuð mikið um stöðu íslenskrar samtímatónlistar, sem hefur fengið mikla athygli undanfarið,“ segir Daníel. „Það verður gaman að fara í þessa ferð með Sinfóníuhljómsveit Íslands, flagga okkar bestu listamönnum og hafa íslenska tónlist með í för.“