Bandaríski upptökustjórinn og útgefandinn Phil Spector er látinn, 81 árs að aldri. Frá þessu greinir bandaríski fréttavefurinn TMZ. Í frétt miðilsins kemur fram að Spector hafi greinst með COVID-19 ekki alls fyrir löngu og andlátið megi rekja til fylgikvilla sjúkdómsins.
Spector var einn þekktasti upptökustjórinn í tónlistarbransanum á sjöunda og áttunda áratug liðinnar aldar. Hann vann meðal annars með Bítlunum og var upptökustjóri á plötu þeirra, Let It Be, árið 1970. Hann vann einnig með Tinu Turner, Righteous Brothers og pönkrokksveitinni Ramones svo dæmi séu tekin.
Spector var dæmdur í 19 ára fangelsi árið 2009 fyrir manndráp og ólöglegan vopnaburð. Var hann sakfelldur fyrir að hafa orðið leikkonunni Lönu Clarkson að bana á heimili sínu árið 2003. Spector hélt alltaf fram sakleysi sínu í málinu.
Í frétt TMZ kemur fram að Spector hafi veikst um miðjan desember innan veggja fangelsisis í Stockton í Kaliforníu þar sem hann afplánaði. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann dvaldi í nokkra daga áður en hann var fluttur aftur í fangelsið. Þar hrakaði heilsu hans og var hann fluttur aftur á sjúkrahús þar sem hann lést í gær, samkvæmt heimildum TMZ.