Banda­ríski upp­töku­stjórinn og út­gefandinn Phil Spector er látinn, 81 árs að aldri. Frá þessu greinir banda­ríski frétta­vefurinn TMZ. Í frétt miðilsins kemur fram að Spector hafi greinst með CO­VID-19 ekki alls fyrir löngu og and­látið megi rekja til fylgi­kvilla sjúk­dómsins.

Spector var einn þekktasti upp­töku­stjórinn í tón­listar­bransanum á sjöunda og áttunda ára­tug liðinnar aldar. Hann vann meðal annars með Bítlunum og var upp­töku­stjóri á plötu þeirra, Let It Be, árið 1970. Hann vann einnig með Tinu Turner, Rig­hteous Brot­hers og pönk­rokk­sveitinni Ramones svo dæmi séu tekin.

Spector var dæmdur í 19 ára fangelsi árið 2009 fyrir mann­dráp og ó­lög­legan vopna­burð. Var hann sak­felldur fyrir að hafa orðið leik­konunni Lönu Clark­s­on að bana á heimili sínu árið 2003. Spector hélt alltaf fram sak­leysi sínu í málinu.

Í frétt TMZ kemur fram að Spector hafi veikst um miðjan desember innan veggja fangelsisis í Stockton í Kali­forníu þar sem hann af­plánaði. Hann var fluttur á sjúkra­hús þar sem hann dvaldi í nokkra daga áður en hann var fluttur aftur í fangelsið. Þar hrakaði heilsu hans og var hann fluttur aftur á sjúkra­hús þar sem hann lést í gær, sam­kvæmt heimildum TMZ.