Séra Pétur Þorsteinsson, óháðasafnaðarprestur, telur víst að hann hafi strax í grunnskóla verið byrjaður að leika sér að orðum og finna „skrýtin og skemmtileg“ orð til að setja í stað „hinna hversdagslegu og litlausu,“ eins og hann kýs að kalla þau.

„Ég er búinn að vera í þessum pælingum síðan í menntaskóla. Barnaskóla jafnvel,“ segir nýyrðasmiðurinn óþreytandi sem hefur nú gefið út sína Pétrísk-íslensku orðabók með alfræðiívafi í 35. skipti.

Bókin kom fyrst út 1988 og nýjar og endurbættar útgáfur hafa síðan hrannast upp með misreglulegu millibili. „Það eru 270 ný orð, sem bætast við frá síðustu útgáfu“, segir Pétur um nýju bókina og bendir á að þessi fjöldi sýni glöggt hversu kvikt og lifandi tungumálið er.

„Það bætist alltaf við. Já, já. Ævinlega. Og ég myndi þiggja svartbaunaseyði en ekki pokapiss,“ heldur klikk-klerkurinn áfram og talar slíkum tungum að sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvort fólk þurfi ekki að hafa orðabókina við hendina til þess að skilja hann.

„Stundum, já. Ef maður hverfur í þann ham að tala pétrískuna þá stundum skilja menn ekki og ná ekki hvað maður er að segja. Þá líka gefur maður í,“ segir Pétur og glottir. „Svona til að fíflast.“

Jarðarfjör

Pétrísk-íslenska orðabókin kom fyrst út í 40 eintökum. Þessi útgáfa telur 1000 eintök en flest urðu þau 1500 í 33. útgáfu 2012. „Ég bara gef þetta út núna á fimm ára fresti,“ segir Pétur sem miðaði þessa útgáfu við 65 ára afmælið sitt í maí. „Svo býst maður alltaf við að þetta sé síðasta útgáfan því það vilji enginn kaupa þetta og bækur seljast ekkert lengur en þetta mjatlast út.“

Ekki stendur heldur á svörum hjá Pétri, og hann segist frekar tala um jarðarfjör en jarðarför, þegar hann er spurður hvort þessari orðasmíð hans fylgi ekki full mikill fíflagangur fyrir vígðan mann.

„Þegar þú ert tilbúinn undir tréverk og ég má segja einhverja góða grínsögu af þér þá vil ég halda jarðarfjör en ekki jarðarför þannig að ég segi einhverja grínaktuga sögu og það léttir lundina í kirkjunni.“

Og þar með reynist fjandinn laus: „Svo er spurning hvort þú ætlir að láta grilla eða grafa? Ertu búinn að ákveða það? Svo er það búkarest. Hvar ætlarðu að setja restina af búknum? Fer það á Öskuhauginn [nýji grafreiturinn frá 2009 fyrir öskuker í Öskjuhlíðinni sem kallast Sólland. Nokkurt haugalag er á reitnum] við Öskuhlíðina? [hlíðin sem hallar að öskuhaugnum í Öskjuhlíðinni].

Beint á bálið

Pétur segir íslenskuna bjóða upp á svo mikinn leik og varar eindregið við þeirri helstefnu sem fer gegn tvíræðni orða og margræðri merkingu þeirra. „Bókin er komin í allar betri bókaverslanir og eflaust einhverjar verri líka því rétttrúnaðurinn getur náttúrlega sótt mig til saka fyrir fordóma gagnvart alls konar minnihlutahópum. Þetta eru mjög víðsjárverðir tímar,“ segir Pétur og vísar til varnagla sem hann slær í formála bókarinnar:

„Ef einhver orð eru ekki samkvæmt rétttrúnaði sumra, teljast vera á mörkum og hneyksla fólk, þá er um að gera að fara með bókabrennu hið fyrsta. Ekki taka þig allt of alvarlega – þú kemst hvort sem er ekki lifandi frá lífinu.“

Hrein samviska

Presturinn leggur áfram út af formálanum. „Mér finnst þau fræði öllsömul mjög slæm, að það megi ekki leika sér og að allir eigi að vera staðlaðir í sama mót og enginn megi vera öðruvísi. Ég kalla þetta líka bullbókina og ég er alveg tilbúinn að fá á mig hvað sem er vegna þess að þetta er bara gert í gríni og léttleika með alveg hreinni samvisku og ég vil ekki neinum illt, slæmt eða vont.“

Pétur og 500 kallinn í ánni Jórdan prýða kápuna. [500 kallinn Jón Sigurðsson, þroskaþjálfi].