Tónlistarmaðurinn Ingi Bauer byrjaði í tónlistinni fyrir mörgum árum en segist þó ekki hafa gert það af alvöru fyrr en Herra Hnetusmjör, Árni Páll Árnason, leyfði honum að endurhljóðblanda eitt laga sinna.

„Ég bjó í Los Angeles með fyrrverandi kærustunni minni á þessum tíma og pældi mikið í hvaða stefnu mig langaði að taka í tónlist. Hús-tónlist var mjög vinsæl úti í LA og ég og Lárus félagi minn hlustuðum eiginlega bara á svoleiðis tónlist svo það var eiginlega bara borðleggjandi að ég myndi gefa út hús-tónlist á íslensku,“ segir Ingi.

Alvöru partíplata

Platan heitir Bau Air sem er tilvísun í Bauer-nafnið, enda hljómar það eins.

„Frá því ég var yngri hef ég alltaf haft gríðarlegan áhuga á flugi og ætlaði alltaf að vera flugmaður eins og afi minn Björn Thoroddsen. Mér fannst svo fyndið að „konseptið“ á plötunni væri að ég tæki fólk í alvöru partíflugferð með lögunum,“ segir hann.

Inga langaði að gera eitthvað öðruvísi þegar kom að plötu­útgáfunni.

„Í staðinn fyrir að hún komi öll út í einu ákvað ég að gefa út eitt lag í einu, svo það koma lög út næstu fimm föstudaga og fylla upp í plötuna.“

Platan er að sögn Inga alvöru partí­plata.

„Mér finnst gaman að búa til „konsept“-lög og fjalla eiginlega öll lögin um eitthvað sem tengist djamminu. Það fyndna er að fólk tekur til dæmis lögin og textana miklu alvarlegar en ég geri, en ég er bara að hafa gaman og bulla.“

Leikur flugmann

Segðu mér frá nýja laginu með Pétri Jóhanni?

„Ég, eins og örugglega 99 prósent af fólki á Íslandi, elska Pétur Jóhann og í einhverjum galsa spurði ég Pétur hvort hann væri til í að gera lag með mér. Hann var merkilega peppaður fyrir því svo við ákváðum að hittast og prófa. Úr því varð Góðir farþegar, þar sem Pétur leikur flugmann og ávarpar partíflugvélina. Við vorum fyrst með annað lag en ákváðum svo að hætta við að gefa það út, það var eiginlega of mikið grín,“ segir Ingi og hlær.

Síðar í mánuðinum gefur Ingi út lag með OnlyFans-stjörnunni Klöru Sif.

„Eins og greinilega gerist oft hjá mér þá vorum við Herra Hnetusmjör í góðum galsa. Þá fékk hann þá hugmynd að heyra í Klöru Sif og fá hana í lagið. Lagið er um OnlyFans-gellu sem græðir meira en flestir, svo ekki vera að „hata á hana“. Þannig að það passaði vel að fá hana í lagið. Hún er ekki að syngja samt í laginu, heldur er þetta eiginlega nær því að vera rapp, fólk verður bara að hlusta á það.“

Aldrei haldið tónleika

Ingi byrjaði að vinna að plötunni rétt fyrir Covid og ætlaði að gefa hana út síðasta sumar.

„En það var eiginlega ekki hægt. Það hefði eiginlega verið fáránlegt að gefa út alvöru partíplötu þegar allt er lokað. En ég er búinn að gera fullt af nýjum lögum á þessu ári, svo það var kannski bara gott að platan tafðist, hún varð miklu betri fyrir vikið.“

Hann stefnir á að halda útgáfutónleika í október.

„Þetta verða öðruvísi tónleikar, með alveg nýju sniði. Svo fólk verður bara að bíða spennt, ég hef aldrei haldið tónleika áður.“

Lagið Góðir farþegar er hægt að nálgast á öllum helstu streymisveitum.