Sæla sveitarinnar er lokabindið í Tengdadótturinni, þríleik Guðrúnar frá Lundi, sem kom fyrst út á árunum 1952-1954 og Forlagið hefur endurútgefið. Endurútgáfa Tengdadótturinnar er enn ein staðfestingin á vinsældum Guðrúnar frá Lundi. Nýjar kynslóðir taka fagnandi á móti verkum hennar.

Guðrún frá Lundi gefur sér tíma til að segja sögur. Henni liggur ekki mikið á. Þegar svo er þá er viss hætta á að höfundur fari að teygja lopann. Þetta gerist einmitt í Sælu sveitarinnar, sem er síst bókanna í þríleiknum.

Ekki er þó hægt að segja bókina leiðinlega, það er hún alls ekki. Hún er læsileg en í samhengi við fyrri bækurnar tvær er þó greinilegt að heildarverkið hefði þurft styttingu. Mikið er um endurtekningar og söguþráðurinn í þessari síðustu bók er alls ekki jafn spennandi og áhugaverður og í þeim fyrri. Hér er Guðrún fyrst og fremst að hnýta enda og kveðja persónur sínar.

Þríhyrningssamband Hjálmars óðalserfingja, unnustu hans og barnsmóður Ástu og fyrrverandi unnustu hans, Sigurfljóðar, er hér í forgrunni. Sigurfljóð hyggst gera allt sem í sínu valdi stendur til að koma í veg fyrir að Hjálmar gangi að eiga Ástu.

Það er hin mótsagnakennda Sigurfljóð sem heldur þessu síðasta bindi uppi og lesandinn skiptist á að fyllast andúð á henni og halda með henni. Lesandinn kynnist henni vel og þeim stormum sem geisa í sálarlífi hennar.

Guðrún er upp á sitt besta þegar hún lýsir gölluðum persónum, eins og Sigurfljóð er. Önnur eftirminnileg og gölluð persóna í bókaflokknum er Ástríður, móðir Hjálmars. Þegar hún kvaddi söguna og hélt á vit feðra sinna gat lesandinn ekki annað en saknað hennar, þótt hún hafi verið ansi erfiður persónuleiki og reynt á þolinmæði allra í kringum sig.

Þótt Sæla sveitarinnar sé of löng og á köflum endurtekningarsöm þá tekst Guðrúnu að hafa ofan af fyrir lesandanum – og enginn sem hefur lesið fyrri bækurnar tvær getur sleppt því að lesa þessa.

Ekki er hægt að fjalla um bókina án þess að minna á hæfileika Guðrúnar til að lýsa daglegu lífi vinnandi fólks og umhverfinu sem það hrærist í. Þar er höfundur nær ætíð í essinu sínu.

Silja Aðalsteinsdóttir skrifar afar greinargóðan eftirmála sem einkennist af virðingu og hlýju í garð Guðrúnar frá Lundi, eins og skáldkonan á skilið. Meðal annars gerir Silja frjálslyndi og umburðarlyndi Guðrúnar að umtalsefni og segir að hún hafi verið góður uppalandi fyrir þjóð sína. Það eru falleg eftirmæli. n

Niðurstaða: Læsileg skáldsaga en of löng og endurtekningarsöm. Þeir sem lesið hafa fyrri bindin tvö í bókaflokknum mega samt ekki missa af henni.