Elísabet þykir hafa flottan og sportlegan stíl. Hún elskar vinnuna sína og er að eigin sögn markaðskona af lífi og sál. „Mér hefur alltaf þótt gaman að selja, kynna, vita meira og segja frá einhverju áhugaverðu. Þannig að starfið mitt hefur aldrei beinlínis verið vinna heldur það sem ég elska að gera,“ segir Elísabet með bros á vör.

Elísabet segir að á Íslandi skipti máli að eiga góðan útivistarfatnað og vera vel dúðaður. Fatnaður frá 66°Norður er í miklu uppáhaldi hjá henni.

Færri föt sem endast lengur

Þegar kemur að fatastíl hefur Elísabet ávallt haft skoðun á því hverju hún vill klæðast. „Ég hef frekar fasta skoðun á því hverju ég vil klæðast og leita kannski of mikið í það sama. Fötin þurfa að vera úr góðum efnum og þægileg kannski fyrst og fremst. Í seinni tíð reyni ég að kaupa færri föt og betri þannig að þau endist lengur. Þetta snýst allt um að hugsa út í umhverfið og það er nokkuð ljóst að við þurfum öll að vanda okkur betur þegar kemur að þessum málaflokki.“

Meiri skófíkill en fatakona

Elísabet segir að fatastíll hennar fari alveg eftir því hvernig henni líður hverju sinni. „Hann fer alveg eftir dagsforminu, í hvernig stuði ég er þegar ég vakna þann daginn. Vinkonur mínar lýsa stílnum mínum sem „casual smart“, „urban chic“, en ég sæki í afslappaðan og þægilegan fatnað umfram allt, helst íþróttaföt. Annars er ég meiri skófíkill fremur en fatakona og ekki minnkaði það þegar JoDis kom á markaðinn þar sem fjölskyldumeðlimirnir Bragi og Erla eru potturinn og pannan þar á bak við. Ég er sjúk í alla skó sem þau framleiða. Strigaskór eru líka í miklu uppáhaldi."

Elísabet er með sinn persónulega fatastíl og hleypur ekki eftir tískubólum.

Þegar kemur að sniðum eru það klassísku sniðin sem Elísabet er hrifnust af. „Ég heillast af frekar klassísku sniði svona dagsdaglega, oftast þröngum buxum niður en teygjanlegum. Ég er ekki mikil kjólakona en á þó nokkra sem mér finnst þægilegir og þeir eru þá flestir frekar beisik en sportlegir.“ Elísabet á líka sínar uppáhaldsflíkur sem hún verður að eiga nóg til af. „Jakki, bolur og skyrta er eitthvað sem ég þarf að eiga nóg af.“

Þægileg og tímalaus snið

Þegar Elísabet er spurð hvaða tískuvörumerki heilli hana mest eru þau tvö sem hún nefnir fyrst, Calvin Klein og 66°Norður. „Calvin Klein er flott og casual. Annars er það nú svo hér á Íslandi að þá þarf maður að vera svo vel dúðaður og eiga góðar útivistarflíkur og ég féll fyrir 66°Norður fyrir nokkrum árum og er mikið í því merki – bæði þægilegt snið og tímalaust. Svo er ég líka mikil Nike-kona alveg síðan ég kynntist þeim vörum fyrst á háskólaárum mínum í Bandaríkjunum fyrir allnokkrum árum.“

Jakkar eru eitthvað sem Elísabet þarf að eiga nóg af enda er hún útivistarkona og fer út að ganga með hundinn.

Beige liturinn uppáhalds

Þegar kemur að litavali, fylgir þú tískustraumunum eða áttu þér þína uppáhaldsliti sem þér finnst klæða þig best?

„Ég er mikil „beige“ kona og hef alltaf verið. Svo er það dökkblái liturinn, gallabuxur og ljós bolur. Þannig að, nei, ég fylgi ekki tískustraumum beinlínis þegar kemur að litum en hef auðvitað oft fallið í þann pytt að kaupa einhvern lit sem er í tísku en klæðir mig engan veginn.“

Elísabet heillast af JoDis-skónum og á þó nokkur pör af þeim í nokkrum litum. Hún velur þægindin.

Hvernig myndir þú lýsa skótískunni sem þú heillast helst af?

„Ég heillast af öllum JoDis-skóm.“

Þegar Elísabet er spurð hvaða fylgihlutir henni finnist vera ómissandi segir hún þá ekki vera marga. „Ég er ekki mikil fylgihlutakona en á þó nokkra trefla og veski – annars er aðalfylgihluturinn síminn minn.“ Elísabetu finnst líka skipta máli að hver og einn finni sinn stíl. „Mér finnst alltaf persónulegur stíll flottastur, það er þegar fólk er trútt sínum eigin stíl og hleypur ekki eftir tískubólunum,“ segir Elísabet. ■