Stríð og kliður: Hvað verður um ímyndunaraflið? nefnist ný bók eftir rithöfundinn, þýðandann, útgefandann og gagnrýnandann Sverri Norland. Hann segir bókina ólíka öllu öðru sem hann hefur áður skrifað en þar fléttar hann saman eigin lífsreynslusögum og hugleiðingum um náttúru, loftslagsbreytingar og tækni, og veltir fyrir sér hvaða áhrif hinar öru breytingar á þessum sviðum eru teknar að hafa á ímyndunarafl okkar og andlega líðan.

„Forsögunnar er að leita aftur til ársins 2016 þegar ég lenti í sköpunarkrísu. Þá bjó ég í New York og mér fannst heimurinn skyndilega svo pakkfullur af knýjandi vandamálum að ég gæti ekki lengur réttlætt það að sitja einn í herbergi og búa til persónur og platvandamál í skáldsögu. Það þyrmdi yfir mig við tilhugsunina um fjöldaútrýmingu dýra, loftslagsbreytingar og yfirtöku tækninnar sem treður sér inn á hvert einasta svið. Þegar við fjölskyldan fluttumst burt frá stórborginni lögðumst við í flakk og um skeið starfaði ég með bónda í Japan sem ræktar lífrænt grænmeti. Þar drap ég mig næstum því á traktor, eins og ég lýsi á fyrstu síðum bókarinnar. Þegar ég flaug um japanska sveitaloftið og skall í jörðina vissi ég að ég ætti ekki að vera bóndi, ég væri miklu betri í því að skrifa. Fljótlega í kjölfarið byrjaði ég að skrifa þessa bók.“

Stríðið gegn náttúrunni

Sverrir kemur víða við í Stríði og klið. „Stríðið í titlinum er stríðið gegn náttúrunni og kliðurinn er upplýsingadynurinn og tæknin sem er farin að leka inn á öll svið. Ég er að velta því fyrir mér hvernig við getum haldið áfram að vera skapandi í þessu umhverfi. Uppspretta ímyndunaraflsins, sem er lífheimurinn allt í kringum okkur, á undir högg að sækja og hausinn á okkur er alltaf undir svo miklu áreiti að við fáum ekki lengur tíma til að vera skapandi og hugsa og vera við sjálf. Hvernig eigum við að fara inn í framtíðina? Samtíminn byggir á því sem undan fór og því vitna ég í skáld fyrri tíma og alls kyns listamenn og enda á því að vinna mig út úr þessari krísu með því að tína til allt sem mér finnst gera lífið þess virði að lifa því.“

Vörn gegn eyðileggingu

Spurður hvort hann sé svartsýnn eða bjartsýnn á framtíð manns og heims segir hann: „Ég er bjartsýnn og svartsýnn í senn. Ég held að við þurfum að geta fjallað um neikvæða hluti á bjartsýnislegan hátt. Það er algjör neikvæðni að hunsa ógnvænlegar áskoranir. Nú, þegar við erum að fara í gegnum COVID, væri sjálfsblekking að telja sér trú um að við getum haldið áfram með sama hætti og áður þegar þessu krefjandi tímabili lýkur.

Ég er ekki vísindamaður, ég er bara venjuleg manneskja og reyni að skrifa þessa bók á mennskan einstaklingsbundinn hátt sem vonandi talar til margra og styrkir þá í því að það skipti máli hvernig hvert og eitt okkar lifir lífinu. Þetta er persónuleg hugvekja sem á að vera fræðandi, án þess að vera fræðirit.

Viðbrögðin fram til þessa hafa verið afar jákvæð svo að ég vona að það sé til marks um að bókin sé tímabær og að það skapist áframhaldandi umræða um hana. Við þurfum að hugsa um náttúruna og tæknina á skapandi og fjölbreyttan hátt, ekki aðeins undir formerkjum stórfyrirtækja og stjórnvalda heldur líka sem sterkir og skapandi einstaklingar sem láta sig veröld sína varða – og sem listamenn. Þar verður frjóasta hugsunin til. Listamenn horfa svo grannt í kringum sig, sköpun þeirra sprettur upp úr ást þeirra á veröldinni – og þar með eru þeir, sem fulltrúar hreinskilni og þess hugrekkis sem það krefst að tala tæpitungulaust, vörn gegn eyðileggingu heimsins.“