Froskur útgáfa gaf nýlega út fyrri hluta myndasögunnar um perlukafarann Maram í snoturri bók sem höfundurinn Magnús Björn Ólafsson og franski teiknarinn Adrroc, Adrian Roach, hafa nostrað við á síðustu þremur árum.
Útgefandinn Jean Posocco segist strax hafa hrifist af sögunni þegar Magnús Björn bar hana undir hann og ákveðið að hafa bókina sem veglegasta en hún er fáanleg á íslensku og ensku.

„Bókin fjallar um ungan perlukafara sem stelst inn í drauma gamals einbúa á afskekktri Kyrrahafseyju og þá upphefst voveifleg atburðarás sem virðist samofin löngu gleymdum harmleik úr grárri forneskju,“ segir Jean og bætir við að í sögunni mætist töfraveröld undirdjúpanna og speglasalur draumheims þar sem upp spretta spurningar um eðli tilverunnar í veruleika sem er við það að gliðna í sundur.
Mantran um Maram
„Þetta byrjaði allt saman á því að ég var á milli verkefna og langaði að skrifa sögu,“ segir Magnús Björn um nokkuð sérstaka tilurð bókarinnar. Hann segir að þrátt fyrir sterka löngun til þess að skrifa fallega sögu hafi hann ekki fundið hana innra með sér.
„Þannig að konan mín, sem er jógakennari, gaf mér möntru sem er sérhönnuð til þess að virkja sköpunarkraftinn. Ég fór að kyrja þessa möntru eins og brjálæðingur og áður en ég vissi af þá fór ég bara að sjá, hvort sem augun voru opin eða lokuð, einhverjar svona myndir, glefsur og senur úti um allt.“
Hann segir þessi leiftur hafa orkað svo sterk á hann að hann hafi ekki getað annað en byrjað að skrifa út frá þeim. „Bæði til þess að koma þessu út og fanga þetta. Bara losna við þetta hreinlega.“
Möntruhamagangur
Magnús Björn segist strax hafa áttað sig á að um myndasögu væri að ræða. „Vegna þess að ég sá þetta bara í raun og veru ljóslifandi,“ segir hann og bendir á að í bókinni sé ein sena, sem hann sá í öllum „þessum möntruhamagangi“ eins og hún leggur sig.
Út frá þessari senu byggði hann síðan beinagrind sögunnar á eigin reynslu. Bæði á ferðalögum sínum og því sem hann hefur upplifað innra með mér og ytra. „En á endanum varð ég alltaf að spyrja mig að því hvaða sögu mig langaði að lesa og skrifaði svo bara þá sögu. Fyrir sjálfan mig og til að leyfa öðrum að heyra.“

Magnús Björn fiktaði við að teikna myndasögur í æsku en kennir misskildum fordómum um að hann sneri baki við listforminu á menntaskólaárunum. Hann hafi þó alltaf átt sér þann draum að gera sína eigin sögu. „En þá var vandamálið að ég kunni ekki lengur að teikna,“ segir hann um stöðuna, loksins þegar sagan kom til hans.
Perluvinir
„Og þá eiginlega féll þetta um sjálft sig. Vegna þess að það er svo erfitt að finna teiknara á Íslandi sem hefur helgað sig þessu listformi og er þá á lausu,“ segir myndasöguhöfundurinn, sem fór með óklárað handritið til Berlínar þar sem honum var bent á franska teiknarann Adrian Roach, Adrroc.
„Við hittumst nokkrum mánuðum síðar þegar ég keyrði til Frakklands og það neistaði einhvern veginn þannig á milli okkar að við erum búnir að vera perluvinir og samstarfsfélagar síðan.
Ég get alveg lofað þér því að við verðum ekki ríkir af þessu en þetta er alveg ægilega gaman og það að finna einhvern sem var tilbúinn að skuldbinda sig allan þennan tíma. Það er í raun og veru bara guðs gjöf.“
Magnús Björn segist aðspurður hafa fengið góð viðbrögð við Maram. „Ég veit ekki hvernig hún er að seljast en fólk hefur sagt mjög fallega hluti við mig um þessa bók. Kannski er ég svona hégómagjarn en það er ótrúlega gott að fá klapp á bakið þegar maður er búinn að leggja svona mikla vinnu í eitthvað eins og þetta.“