Að sögn Sigurðar Stefánssonar, eiganda Köfunarþjónustu Sigurðar, gerðist það eftir röð mistaka en skipið sökk á hálftíma þennan örlagaríka morgun eftir að hafa verið sleppt úr slipp við Ægisgarð.

Þegar Perla sökk

Perla var smíðuð árið 1964 í Vestur- Þýskalandi og var í eigu útgerðarinnar Björgunar ehf. Í atvikalýsingu í rannsóknarskýrslu sem unnin var vegna slyssins kemur fram:

„Við sjósetningu Perlu úr slippnum um kl. 10.30 var dráttarbáturinn Magni festur við skipið og tók hafnsögumaður við stjórn aðgerða að færa skipið að bryggju. Þrír menn voru um borð í Perlu, vélstjóri skipsins og tveir starfsmenn Stálsmiðjunnar Framtaks. Fljótlega eftir að Perla flaut úr sleðanum kom stb halli á skipið en haldið var áfram að flytja það til legu á austanverðum Ægisgarði ... Áhöfnin á Magna fékk þær upplýsingar að lekinn væri einskorðaður við lestina og því talin lítil hætta á ferðum.“

Kafari býr sig undir að kafa niður að skipinu þann 16. nóvember 2015. Síðar um daginn var skipið komið upp og þurrausið af sjó. Myndir/aðsendar

Hallinn jókst enn

En hallinn hélt áfram að aukast og var ákveðið að draga skipið aftur að bryggju. Þá var óskað eftir dælum til að dæla úr skipinu um leið og það kæmi að bryggju, en það var um seinan. Stuttu síðar var skipið sest að framan og afturhlutinn byrjaður að sökkva.

Samkvæmt vefsíðu Faxaflóahafna mætti Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins á vettvang til að dæla sjó úr skipinu en ekki tókst nægilega vel til. Mennirnir þrír sem voru um borð komu klakklaust í land, en ætla má að eitthvert stolt hafi þó verið sært í staðinn. Við nánari athugun kom í ljós að ástæðan fyrir því að skipið sökk hefði meðal annars verið blöndunarlokinn, sem var opinn og átti að vera lokaður. Hann var staðsettur fremst á skipinu og notaður til að taka sjó inn í lestina til að auðvelda losun með dælingu.

Það vakti athygli þegar Perla var sokkin við bryggjuna að hvorugur gúmmíbjörgunarbátanna sem festir voru á skipið höfðu skilað sér upp á yfirborðið en þeir voru með sérstökum Olsen-sleppibúnaði með Berwyn-sjósleppimembrum.

„Við mælingu kom í ljós að þá var dýpi niður á skel gúmmíbjörgunarbátsins stjórnborðsmegin 2,3 m. Báðir sjósleppilokarnir virkuðu síðar þegar dýpið hafði aukist á flóði og búnaðurinn kominn á um 4 m dýpi. Sjósleppibúnaðurinn var með gildistíma til 2018“, segir í skýrslunni.

Undirbúningur var hafinn nokkrum dögum á undan en það tókst að kvöldi 16. nóvember 2015 að koma skipinu upp.

Nokkrar tilraunir

Köfunarþjónusta Sigurðar ásamt starfsmönnum Björgunar hófust handa við að loka skipinu til að koma í veg fyrir að olía læki úr því og til að undirbúa að hægt yrði að lyfta því.

„Hátt í 12 þúsund lítrar af olíu voru í skipinu og 800 lítrar af glussa,“ segir Sigurður og var því rík ástæða að koma í veg fyrir að það allt læki út í sjó.

Að sögn Sigurðar var nokkur vandi að ná skipinu upp og þurfti til þess nokkrar atrennur. Í skýrslunni kemur fram að þann 4. nóvember höfðu kafarar lokað mannopum og hurðum. Þá hafði dælubúnaði verið komið fyrir á tveimur stöðum á skipinu.

„Við dælingu reyndist skipið einungis lyftast að aftan og þrátt fyrir ýmsar tilraunir næstu daga tókst ekki að ná skipinu á flot,“ segir í skýrslunni.

Dæla þurfti töluvert af sjó úr skipinu til að það lyftist upp af hafsbotni.

Dælt upp úr Perlu

Á hádegi mánudagsins 16. nóvember var hafist handa við að dæla sjó úr Perlu eftir mikinn undirbúning dagana á undan.

„Skipið lá á hafsbotni í tvær vikur áður en við náðum að dæla úr því sjó og ná því upp. Þegar svona stór verkefni koma á borð hjá okkur fáum við skipaverkfræðinga til þess að vinna með okkur og að þessu sinni unnum við með Navis til þess að reikna út stöðugleika skipsins,“ segir Sigurður.

Verkefnið gekk hægar en gert var ráð fyrir, aðallega vegna norðanstinnings sem seinkaði aðgerðum. Að kvöldi mánudags 16. nóvember tókst svo loks að ná Perlu af botni Reykjavíkurhafnar en í kjölfarið var skipið orðið ónýtt og því ekki sjósett á ný.