Lenya Rún Taha Karim, varaþingmaður Pírata, lenti í skondnu atviki í dag er hún kastaði penna sínum, að því er virðist óvart, á meðan hún var að halda ræðu. Atvikið má sjá í spilara Alþingis.

Hún var að ryfja upp 27. grein fjöleignarhúsalaga í ræðupúlti á Alþingi þegar penninn, sem hún sveiflaði, rann úr greipum hennar.

Strax í kjölfarið heyrðist penninn lenda, líklega á gólfi Alþingishússins, og þá sagði Lenya „afsakið forseti“. Síðan hélt hún máli sínu áfram.

Sjálf hefur Lenya gert grín af atvikinu á samfélagsmiðlinum Twitter, en þar skrifaði hún: „Þið mynduð líka fá smjörputta eftir fimmtán mínútna ræðu um hlutafélög,“ Færsla hennar hefur vakið mikla lukku.