Már vinnur fyrir Félag húseigenda á Spáni og aðstoðar því fjölda Íslendinga sem flytja þangað alfarið eða dvelja þar löngum stundum.

„Hér hafa verið allt að 5.000 Íslendingar en við tölum oft um að þeir séu um 3.000, sem er tæpt eitt prósent af þjóðinni. Ég er íbúi hér, flutti úr Kópavogi og er með heimilisfesti hér á Spáni. Þeir Íslendingar sem eru með heimilisfesti hér á svæðinu skipta hundruðum. Þeir gætu jafnvel verið 1.000. Svo eru það farfuglarnir sem flykkjast hingað með flugvélunum í september og fara ekkert fyrr en í maí. Þeir eru örugglega 1.000 líka og svo er fjöldinn allur af fólki sem dvelur hér yfir sumar,“ segir Már sem er staddur á lögmannsskrifstofu Félags húseigenda á Spáni þar sem hann var að ljúka við að aðstoða hjón við að gera erfðaskrá.

„Spænska ríkið krefst þess að við gerum erfðaskrá ef við eigum eign hér. Annars gengur eignin bara til spænska ríkisins. Við erum á fullu hér að aðstoða fólk við að koma því á réttan kjöl hér, koma því fyrir í heilbrigðiskerfinu hér, sem er eitt það besta í heimi. Við erum að vinna baki brotnu hér allan daginn að hjálpa fólki,“ segir Már.

Ókeypis heilbrigðisþjónusta

Már segir að lífið á Spáni sé allt öðruvísi en á Íslandi, það þarf ekki að nota yfirhafnir vegna veðurblíðu og meira verður úr peningunum.

„Hér á elliárunum þá dugar okkur betur þessi smán sem við fáum frá Tryggingastofnun heima og skertur lífeyrissjóður. Við fáum meira fyrir peninginn hér. En þegar evran er komin í 152 krónur þá töpum við. Við fáum færri evrur út af háu gengi,“ útskýrir hann.

„En það er þannig að annað hvort áttu mikið af peningum og þolir skerðingar, eða þú átt lítið af þeim og þolir þær þá síður. En við erum hér af því peningarnir okkar duga miklu betur hér í öllu tilliti. Við borgum ekki krónu í heilbrigðiskerfið hér. Hvort sem við förum á heilsugæslu eða sjúkrahús. Það er allt baktryggt af íslenska heilbrigðiskerfinu. Líka ef þú ert með lögheimili á Íslandi, þá máttu dvelja á Spáni í sex mánuði og þarft bara bláa evrópska sjúkratryggingakortið til að fá ókeypis heilbrigðisþjónustu. Við höfum það bara eins og blómi í eggi.“

Öflugt félagslíf

Már segir að mikill samgangur sé á milli Íslendinganna á Valencia-svæðinu. Þar er auk húseigendafélagsins starfrækt Íslendingafélag. Reglulega eru haldnir ýmsir fundir og mannfagnaðir.

„Ég er til dæmis að fara á eftir á fund fyrir Íslendinga á þekktum sundlaugarbar hér. Við höldum alls kyns mannfagnaði, veislur og árshátíðir. Þetta er gott samfélag. Í október verður nokkur hundruð manna veisla hjá Félagi húseigenda hér. Við höfum það mjög gott hér, það er enginn neikvæður punktur,“ segir hann.

„Við erum með allt sem við þurfum hér og okkar eigin ræðismann sem sér um okkar mál. Fólk getur verið alveg öruggt hér.“