Fall Manchester United er ekki aðeins inni á vellinum en liðið fellur um fjögur sæti á milli ára á lista Forbes sem gefinn var út í vikunni. Liðið er nú sjötta verðmætasta félag heims en félagið var í öðru sæti í fyrra.

Barcelona var eina liðið á topp 50 lista Forbes sem skilaði neikvæðri afkomu í fyrra en félagið keypti rándýra leikmenn og gerði nýjan samning við Lionel Messi sem þénar nú 80 milljónir dollara á ári, um 9,7 milljarða króna. Séu bónusar teknir með reiknar Forbes með að talan hækki upp í 92 milljónir dollara eða 11,2 milljarða. Þess má geta að samningar Messi við Adidas, Gatorade, Huawei, Mastercard og Pepsi skila honum auka 35 milljónum dollara í vasann á ári eða 4,3 milljörðum. Aðeins Kanye West, Kylie Jenner og Taylor Swift þéna meira en Messi. Alls var tapið 37 milljónir dollara hjá Börsungum á síðasta rekstrarári eða 4,5 milljarðar.

Helmingur liðanna á topp 50 listanum skilaði meira en þremur milljörðum króna í hagnað og meira en helmingurinn hagnaðist um 12,2 milljarða. Sem dæmi hagnaðist Real Madrid um þessa milljarða á því að vinna Meistaradeildina í fyrra.

Fjórða árið í röð eru kúrekarnir frá Dallas á toppnum en þeir eru metnir á fimm milljarða dollara eða 611 milljarða króna. Þeir fá um 340 milljónir dollara árlega frá styrktaraðilum og lúxussætum á AT&T vellinum eða 41,5 milljarð króna. Þá voru níu af 50 vinsælustu íþróttaviðburðum Bandaríkjanna leikir með Dallas Cowboys í deildinni. NFL er í sérflokki þegar kemur að peningum en 26 NFL-lið eru á listanum. Meistararnir í New England Patriots eru í sjöunda sæti. Sjónvarpsstöðvarnar CBS, NBC, Fox, ESPN og DirecTV borguðu samkvæmt Forbes 260 milljónir til hvers einasta liðs í NFL-deildinni fyrir sjónvarpsréttinn eða 31 milljarð. Níu MLB-lið eru á listanum, átta evrópsk fótboltalið og sjö NBA-lið.

Samkvæmt Forbes þarf félag að vera metið á yfir tvo milljarða dollara eða 244 milljarða til að komast á topp 50 listann sem er 1,2 milljörðum dollara meira en fyrir fimm árum. Sé farið aftur til ársins 2012 þá þótti það stórfrétt að Manchester United væri metið á tvo milljarða dollara. Öll liðin í NFL, NBA og MLB eru metin á meira en einn milljarð dollara. Þess má geta að verðmætasta félagið í MLS-deildinni, Atlanta United, er metið á 340 milljónir dollara eða 41 milljarð króna.

„Verðmæti liðanna er alltaf að hækka þökk sé sjónvarpssamningum. Liðin græða meira en laun leikmanna hækka lítið þannig að það hefur aldrei verið hagkvæmara að eiga íþróttalið,“ sagði Kurt Badenhausen, ritstjóri Forbes, í tilefni af listanum.

Sem dæmi má nefna að síðan Fenway Sports Group keypti Liverpool árið 2010 hefur verðmæti félagsins margfaldast. Liðið er í nú í fyrsta sinn á topp 50 listanum. Þegar FSG keypti það var það metið á 437 milljónir dollara eða skitna 53 milljarða króna. Nú eru þeir Evrópumeistarar, rétt misstu af enska titlinum, með besta varnarmann heims og þjálfara sem allir vilja spila fyrir og metnir á 2,2 milljarða dollara eða 269 milljarða.

Í grein sem Mike Ozanian, blaðamaður Forbes, skrifar segir hann að það sé ekki verið að skrúfa fyrir peningaregnið í fótboltanum. Það muni aukast næstu ár. Real Madrid hafi selt internetréttinn fyrir 224 milljónir dollara og fengið góða summu staðgreidda. Treyjusamningur Barcelona við Rakuten er upp á 246 milljónir dollara árlega en hann tók í gildi í fyrra og þá fær félagið 174 milljónir dollara árlega fyrir samning sinn við Nike. Juventus tilkynnti að þeir væru á leið í Adidas fyrir 457 milljónir dollara en samningurinn er til átta ára. Real Madrid er að að framlengja samning sinn við Adidas til 12 ára og fær 1,8 milljarða dollara fyrir það, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Þá eru sjónvarpssamningar alltaf að hækka. Meistaradeildarpeningarnir flæða inn og nýverið var samningurinn til Bandaríkjanna seldur á 100 milljónir dollara árlega. Það er tvisvar sinnum meira en Fox greiddi fyrir ári. Fyrir tímabilið í fyrra fengu liðin 2,28 milljarða dollara í verðlaunafé sem var 30 prósent aukning.

Enn er verið að semja við Amazon um streymi frá enska boltanum og Facebook gæti verið á leiðinni að kaupa sig inn. Einhverjar krónur og jafnvel aurar munu koma í kassann, verði það að veruleika, hjá ensku liðunum.

Þá skilar nafnaréttur á leikvöllum félögum tekjum. Flest lið eru nú með styrktaraðila á leikvöngum sínum sem skilaði félögunum 127 milljónum dollurum á ári. Manchester United hefur þó ekki enn gripið til þess ráðs enda Old Trafford eitt frægasta vallarnafn heims. Félagið gæti þó selt sinn nafnarétt fyrir 35 milljónir dollara á ári eða 4,2 milljarða króna, hið minnsta samkvæmt grein Ozanian.

Manchester United er sjötta verðmætasta félag heims en félagið var í öðru sæti í fyrra.
Fréttablaðið/Getty

Verðmætustu félögin, í milljörðum króna

1 Dallas Cowboys 611

2 New York Yankees 562

3 Real Madrid 518

4 Barcelona 491

5 New York Knicks 489

6 Manchester United 465

7 New England Patriots 464

8 Los Angeles Lakers 452

9 Golden State Warriors 428

10 Los Angeles Dodgers 403

10 New York Giants 403

Meistardeildin 2017-2018, í milljörðum króna

1 Real Madrid 12,2

2 AS Roma 11,7

3 Liverpool 11,3

4 Juventus 11,1

5 Bayern München 9,8

6 Chelsea 9,1

7 Manchester City 8,8

8 Paris Saint-Germain 8,6

9 Tottenham Hotspur 8,5

10 Barcelona 7,9

Rekstrarhagnaður

#3 Manchester United 29,1M

#9 Tottenham Hotspur 25,9 M

#5 Manchester City 20,5 M

#4 Bayern München 15,8 M

#8 Liverpool 15,6 M

#6 Chelsea 15,5 M

#1 Real Madrid 13,7 M

#7 Arsenal 9,7 M

#20 Newcastle United 9,7 M

#15 Inter Milan 8,9 M