Breska líkamsræktardrottningin Leanne Hainsby hefur barist við brjóstakrabbamein síðan í ágúst á síðasta ári. Hainsby er þekktur áhrifavaldur en að undanförnu hefur hún vakið athygli fyrir að vera eitt af andlitum Peloton-hjólreiðaappsins vinsæla.
Leanne opnaði sig um krabbameinið í færslu á Instagram á föstudag. Hún hefur að undanförnu gengist undir lyfjameðferð og er nú á leið í geislameðferð til að vinna bug á meininu.
Leanne segir að hún hafi fundið hnút í brjóstinu og fyrst um sinn hafi læknar verið efins að um illkynja krabbamein væri að ræða. Hún segir að meðferðin hafi heilt yfir gengið vel þó lyfjameðferðin hafi vissulega verið krefjandi.
„Fram undan er langt og strangt ferli, sjúkrahúsheimsóknir eru orðnar hluti af daglegu lífi og ég tek bara eitt skref í einu,“ sagði hún.