Íslensku bókmenntaverðlaunin og Íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropinn voru veitt af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, í kvöld við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.
Þrír höfundar hlutu Íslensku bókmenntaverðlaunin í þremur flokkum eins og venja er, Pedro Gunnlaugur Garcia fyrir skáldsöguna Lungu í flokki skáldverka, Arndís Þórarinsdóttir fyrir bókina Kollhnís í flokki barna- og ungmennabóka og Ragnar Stefánsson fyrir bókina Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta í flokki fræðibóka og rita almenns efnis.
Verðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Auk þess eru verðlaunahöfum afhent skrautrituð verðlaunaskjöl og verðlaunagripir.
Fjögurra manna lokadómnefnd valdi verkin úr hópi tuttugu bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember á síðasta ári. Lokadómnefnd skipuðu þau Guðrún Steinþórsdóttir, Kamilla Guðmundsdóttir, Sigríður Kristjánsdóttir, Skúli Pálsson og Gísli Sigurðsson, sem var formaður nefndarinnar.
Nánar má lesa um hvert verðlaunaverk hér að neðan.

Barna- og ungmennabækur
Arndís Þórarinsdóttir hlýtur Íslensku bókmenntaverðlaunin 2022 fyrir bókina Kollhnís í flokki barna- og ungmennabóka. Þetta er í annað sinn sem Arndís hlýtur verðlaunin en hún fékk þau áður árið 2020 fyrir bókina Blokkin á heimsenda sem hún skrifaði ásamt Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur.
Í þakkarræðu sinni greindi Arndís frá því að hún hefði unnið að bókinni í rúman áratug og kvaðst vera bæði þakklátur höfundur og þakklátur lesandi.
„Ég er innilega þakklát fyrir þær vinsamlegu móttökur sem sagan hefur fengið – og enn svolítið undrandi. Slapp þetta virkilega til? En eftir því sem frá líður held ég að velvilji lesenda sé kannski einmitt vegna breyskleikans – bæði míns og sögupersónanna minna. Við erum nefnilega öll svo ósköp ófullkomin,“ sagði Arndís.
Umsögn lokadómnefndar:
Kollhnís segir frá því hvernig ungur drengur upplifir umhverfi sitt og fjölskylduaðstæður sem hann ræður illa við eftir að litli bróðir hans greinist með einhverfu. Sagan er skrifuð af miklu stílöryggi og tekur á erfiðum málum með hæfilegri glettni sem gerir það bæði bærilegt og skemmtilegt að fylgjast með því hvernig sýn fullorðinna afhjúpar þá mynd sem drengurinn gerir sér af þeim sem hann dáist að og tengist vináttu- og tilfinningaböndum – í krafti einlægni sinnar. Samtöl eru sannfærandi og styðja vel við hvernig snúið er upp á ranghugmyndir um fullkomnun og velgengni annarra — sem kallast á við þá viðleitni að feta hina beinu lífsins braut að skilgreindum markmiðum með sviðsettri sjálfsmynd á samfélagsmiðlum.
Eftirfarandi höfundar voru tilnefndir í flokki barna- og ungmennabóka:
Arndís Þórarinsdóttir: Kollhnís, útg. Mál og menning
Elísabet Thoroddsen: Allt er svart í myrkrinu, útg. Bókabeitan
Eiríkur Örn Norðdahl og Elías Rúni, myndhöfundur: Frankensleikir
Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir: Héragerði, útg. Salka
Sigrún Eldjárn: Ófreskjan í mýrinni, útg. Mál og menning
Dómnefnd fyrir tilnefningar skipuðu: Guðrún Steinþórsdóttir, formaður dómnefndar, Gunnar Björn Melsted og Helga Ósk Hreinsdóttir.
Ég er innilega þakklát fyrir þær vinsamlegu móttökur sem sagan hefur fengið – og enn svolítið undrandi.
-Arndís Þórarinsdóttir

Fræðibækur og rit almenns efnis
Ragnar Stefánsson, stundum kallaður Ragnar skjálfti, hlýtur Íslensku bókmenntaverðlaunin 2022 fyrir bókina Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta í flokki fræðibóka og rita almenns efnis. Bókin er yfirlitsrit um jarðskjálfta á Íslandi og fjallar einnig um uppbyggingu vöktunarkerfis með jarðhræringum og jarðskjálftaspár.
Í þakkarræðu sinni sagði Ragnar Stefánsson meðal annars:
„Á hverju ári valda jarðskjálftar gríðarlegu tjóni og mannskaða einhvers staðar á jarðarkringlunni. Íslendingar hafa ekki farið varhluta af því í aldanna rás. Að geta spáð á gagnlegan hátt fyrir um jarðskjálfta er líklega innsti draumur allra þeirra sem hafa eftirlit með dyntum jarðskorpunnar, allra jarðskjálftafræðinga.“
Umsögn lokadómnefndar:
Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta geymir afrakstur ævilangrar glímu við rannsóknir sem hafa beinst að því hvernig spá megi fyrir um jarðskjálfta. Hér eru dregnar saman niðurstöður alþjóðlegrar þekkingarleitar sem skilaði loks þeim árangri að hægt var að spá fyrir um stóran skjálfta á Suðurlandi. Sagan á bak við þennan heimsögulega árangur er sögð með aðgengilegum hætti, vel skrifuðum texta, upplýsandi kortum og skýringarmyndum, án þess að slakað sé á fræðilegum kröfum; uppgötvunarferlinu er haldið til haga og þess gætt að sýna öllum sem að því hafa komið örlæti. Hér getur hvert mannsbarn séð hvernig vísindaleg þekking verður til – á sviði sem varðar almenning miklu – og því er verkið líklegt til að laða ungt fólk að vísindum.
Eftirfarandi höfundar voru tilnefndir í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:
Árni Snævarr: Ísland Babýlon: Dýrafjarðarmálið og sjálfstæðisbaráttan í nýju ljósi, útg. Mál og menning
Kristín Svava Tómasdóttir: Farsótt: Hundrað ár í Þingholtsstræti 25, útg. Sögufélag
Ragnar Stefánsson: Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta, útg. Skrudda
Stefán Ólafsson: Baráttan um bjargirnar: Stjórnmál og stéttarbarátta í mótun íslensks samfélags, útg. Háskólaútgáfan
Þorsteinn Gunnarsson: Nesstofa við Seltjörn: Saga hússins, endurreisn og byggingarlist, útg. Þjóðminjasafn Íslands
Dómnefnd fyrir tilnefningar skipuðu: Skúli Pálsson, formaður dómnefndar, Margrét Auðunsdóttir og Sara Hrund Helgudóttir.
Að geta spáð á gagnlegan hátt fyrir um jarðskjálfta er líklega innsti draumur allra þeirra sem hafa eftirlit með dyntum jarðskorpunnar, allra jarðskjálftafræðinga.
-Ragnar Stefánsson

Skáldverk
Pedro Gunnlaugur Garcia hlýtur Íslensku bókmenntaverðlaunin 2022 fyrir skáldsöguna Lungu. Pedro hefur áður sent frá skáldsöguna Málleysingjarnir og er þetta í fyrsta skipti sem hann er tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Í þakkarræðu sinni lýsti Pedro bókinni sem ættarsögu með fjölskrúðugu persónugallerí sem sé aðallega birtingarmynd og útrás fyrir hans eigin geðflækjur og duttlunga.
„Ég þóttist vita að Lungu höfðaði ekki endilega til allra. Bókin tekur oft sérkennilega slagi, þótt ég hafi reynt eftir bestu getu að hafa hana áhugaverða og vonandi skemmtilega líka. Að bókin hafi náð til lesenda, snert við sumum, og nú unnið til verðlauna er því ákaflega ánægjulegt, undarlegt – og satt að segja yfirþyrmandi. Ég átti alls ekki von á því, það var í besta falli fjarlægur draumur,“ sagði Pedro.
Umsögn lokadómnefndar:
Lungu er breið fjölskyldusaga margra kynslóða úr ólíkum heimshornum, sem færist smám saman inn á okkar tímaskeið hér á landi en teygir sig líka til framtíðar þegar kynslóðirnar safnast saman í sýndarveruleika sem kallast á við sjálfa alheimssöguna. Hér er sleginn nýr tónn í íslenskri skáldsagnagerð með töfrandi frásagnargleði sem fer áreynslu- og hispurslaust á milli dýpstu tilfinninga og átaka til ævintýralegra gleðistunda með goðsagnakenndu ívafi – þannig að jafnvel mestu hörmungarnar njóta góðs af gleðinni. Sambönd elskenda og kynslóða eru brotin og löskuð en sögur og minningar megna að lýsa upp örlagastundir í lífi þeirra, sýna lesandanum sjálfan lífsneistann og fanga oft kjarnann í langri ævi.
Eftirfarandi höfundar voru tilnefndir í flokki skáldverka:
Auður Ava Ólafsdóttir: Eden, útg. Benedikt bókaútgáfa
Dagur Hjartarson: Ljósagangur, útg. JPV útgáfa
Kristín Eiríksdóttir: Tól, útg. JPV útgáfa
Pedro Gunnlaugur Garcia: Lungu, útg. Bjartur
Sigríður Hagalín Björnsdóttir: Hamingja þessa heims: Riddarasaga, útg. Benedikt bókaútgáfa
Dómnefnd fyrir tilnefningar skipuðu: Kamilla Guðmundsdóttir, formaður dómnefndar, Andri Yrkill Valsson og Þorvaldur Davíð Kristjánsson.
Að bókin hafi náð til lesenda, snert við sumum, og nú unnið til verðlauna er því ákaflega ánægjulegt, undarlegt – og satt að segja yfirþyrmandi.
-Pedro Gunnlaugur Garcia