Ís­lensku bók­mennta­verð­launin og Ís­lensku glæpa­sagna­verð­launin Blóð­dropinn voru veitt af for­seta Ís­lands, Guðna Th. Jóhannes­syni, í kvöld við há­tíð­lega at­höfn á Bessa­stöðum.

Þrír höfundar hlutu Ís­lensku bók­mennta­verð­launin í þremur flokkum eins og venja er, Pedro Gunn­laugur Garcia fyrir skáld­söguna Lungu í flokki skáld­verka, Arn­dís Þórarins­dóttir fyrir bókina Koll­hnís í flokki barna- og ung­menna­bóka og Ragnar Stefáns­son fyrir bókina Hve­nær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarð­skjálfta í flokki fræði­bóka og rita al­menns efnis.

Verð­launin nema einni milljón króna fyrir hvert verð­launa­verk og eru kostuð af Fé­lagi ís­lenskra bóka­út­gef­enda. Auk þess eru verð­launa­höfum af­hent skraut­rituð verð­launa­skjöl og verð­launa­gripir.

Fjögurra manna loka­dóm­nefnd valdi verkin úr hópi tuttugu bóka sem til­nefndar voru til verð­launanna í desember á síðasta ári. Loka­dóm­nefnd skipuðu þau Guð­rún Stein­þórs­dóttir, Kamilla Guð­munds­dóttir, Sig­ríður Kristjáns­dóttir, Skúli Páls­son og Gísli Sigurðs­son, sem var for­maður nefndarinnar.

Nánar má lesa um hvert verð­launa­verk hér að neðan.

Arn­dís hefur áður hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin en hún fékk þau 2020 fyrir bókina Blokkin á heims­enda á­samt Huldu Sig­rúnu Bjarna­dóttur.
Mynd/Samsett

Barna- og ung­menna­bækur

Arn­dís Þórarins­dóttir hlýtur Ís­lensku bók­mennta­verð­launin 2022 fyrir bókina Koll­hnís í flokki barna- og ung­menna­bóka. Þetta er í annað sinn sem Arn­dís hlýtur verð­launin en hún fékk þau áður árið 2020 fyrir bókina Blokkin á heims­enda sem hún skrifaði á­samt Huldu Sig­rúnu Bjarna­dóttur.

Í þakkar­ræðu sinni greindi Arn­dís frá því að hún hefði unnið að bókinni í rúman ára­tug og kvaðst vera bæði þakk­látur höfundur og þakk­látur lesandi.

„Ég er inni­lega þakk­lát fyrir þær vin­sam­legu mót­tökur sem sagan hefur fengið – og enn svo­lítið undrandi. Slapp þetta virki­lega til? En eftir því sem frá líður held ég að vel­vilji les­enda sé kannski ein­mitt vegna breysk­leikans – bæði míns og sögu­per­sónanna minna. Við erum nefni­lega öll svo ó­sköp ó­full­komin,“ sagði Arn­dís.

Um­sögn loka­dóm­nefndar:

Koll­hnís segir frá því hvernig ungur drengur upp­lifir um­hverfi sitt og fjöl­skyldu­að­stæður sem hann ræður illa við eftir að litli bróðir hans greinist með ein­hverfu. Sagan er skrifuð af miklu stíl­öryggi og tekur á erfiðum málum með hæfi­legri glettni sem gerir það bæði bæri­legt og skemmti­legt að fylgjast með því hvernig sýn full­orðinna af­hjúpar þá mynd sem drengurinn gerir sér af þeim sem hann dáist að og tengist vin­áttu- og til­finninga­böndum – í krafti ein­lægni sinnar. Sam­töl eru sann­færandi og styðja vel við hvernig snúið er upp á rang­hug­myndir um full­komnun og vel­gengni annarra — sem kallast á við þá við­leitni að feta hina beinu lífsins braut að skil­greindum mark­miðum með svið­settri sjálfs­mynd á sam­fé­lags­miðlum.

Eftir­farandi höfundar voru til­nefndir í flokki barna- og ung­menna­bóka:

Arn­dís Þórarins­dóttir: Koll­hnís, útg. Mál og menning
Elísa­bet Thor­odd­sen: Allt er svart í myrkrinu, útg. Bóka­beitan
Ei­ríkur Örn Norð­dahl og Elías Rúni, mynd­höfundur: Frankens­leikir
Lóa Hlín Hjálm­týs­dóttir: Héra­gerði, útg. Salka
Sig­rún Eld­járn: Ó­freskjan í mýrinni, útg. Mál og menning

Dóm­nefnd fyrir til­nefningar skipuðu: Guð­rún Stein­þórs­dóttir, for­maður dóm­nefndar, Gunnar Björn Mel­sted og Helga Ósk Hreins­dóttir.

Ég er inni­lega þakk­lát fyrir þær vin­sam­legu mót­tökur sem sagan hefur fengið – og enn svo­lítið undrandi.

-Arndís Þórarinsdóttir

Ragnar Stefánsson er jarðskjálftafræðingur og prófessor.
Mynd/Samsett

Fræði­bækur og rit al­menns efnis

Ragnar Stefáns­son, stundum kallaður Ragnar skjálfti, hlýtur Ís­lensku bók­mennta­verð­launin 2022 fyrir bókina Hve­nær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarð­skjálfta í flokki fræði­bóka og rita al­menns efnis. Bókin er yfir­lits­rit um jarð­skjálfta á Ís­landi og fjallar einnig um upp­byggingu vöktunar­kerfis með jarð­hræringum og jarð­skjálfta­spár.

Í þakkar­ræðu sinni sagði Ragnar Stefáns­son meðal annars:

„Á hverju ári valda jarð­skjálftar gríðar­legu tjóni og mannskaða ein­hvers staðar á jarðar­kringlunni. Ís­lendingar hafa ekki farið var­hluta af því í aldanna rás. Að geta spáð á gagn­legan hátt fyrir um jarð­skjálfta er lík­lega innsti draumur allra þeirra sem hafa eftir­lit með dyntum jarð­skorpunnar, allra jarð­skjálfta­fræðinga.“

Um­sögn loka­dóm­nefndar:

Hve­nær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarð­skjálfta geymir af­rakstur ævi­langrar glímu við rann­sóknir sem hafa beinst að því hvernig spá megi fyrir um jarð­skjálfta. Hér eru dregnar saman niður­stöður al­þjóð­legrar þekkingar­leitar sem skilaði loks þeim árangri að hægt var að spá fyrir um stóran skjálfta á Suður­landi. Sagan á bak við þennan heim­sögu­lega árangur er sögð með að­gengi­legum hætti, vel skrifuðum texta, upp­lýsandi kortum og skýringar­myndum, án þess að slakað sé á fræði­legum kröfum; upp­götvunar­ferlinu er haldið til haga og þess gætt að sýna öllum sem að því hafa komið ör­læti. Hér getur hvert manns­barn séð hvernig vísinda­leg þekking verður til – á sviði sem varðar al­menning miklu – og því er verkið lík­legt til að laða ungt fólk að vísindum.

Eftir­farandi höfundar voru til­nefndir í flokki fræði­bóka og rita al­menns efnis:

Árni Snævarr: Ís­land Babýlon: Dýra­fjarðar­málið og sjálf­stæðis­bar­áttan í nýju ljósi, útg. Mál og menning
Kristín Svava Tómas­dóttir: Far­sótt: Hundrað ár í Þing­holts­stræti 25, útg. Sögu­fé­lag
Ragnar Stefáns­son: Hve­nær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarð­skjálfta, útg. Skrudda
Stefán Ólafs­son: Bar­áttan um bjargirnar: Stjórn­mál og stéttar­bar­átta í mótun ís­lensks sam­fé­lags, útg. Há­skóla­út­gáfan
Þor­steinn Gunnars­son: Nes­stofa við Sel­tjörn: Saga hússins, endur­reisn og byggingar­list, útg. Þjóð­minja­safn Ís­lands

Dóm­nefnd fyrir til­nefningar skipuðu: Skúli Páls­son, for­maður dóm­nefndar, Margrét Auðuns­dóttir og Sara Hrund Helgu­dóttir.

Að geta spáð á gagn­legan hátt fyrir um jarð­skjálfta er lík­lega innsti draumur allra þeirra sem hafa eftir­lit með dyntum jarð­skorpunnar, allra jarð­skjálfta­fræðinga.

-Ragnar Stefánsson

Lungu er önnur skáldsaga Pedro Gunnlaugs Garcia.
Mynd/Samsett

Skáld­verk

Pedro Gunn­laugur Garcia hlýtur Ís­lensku bók­mennta­verð­launin 2022 fyrir skáld­söguna Lungu. Pedro hefur áður sent frá skáld­söguna Mál­leysingjarnir og er þetta í fyrsta skipti sem hann er til­nefndur til Ís­lensku bók­mennta­verð­launanna.

Í þakkar­ræðu sinni lýsti Pedro bókinni sem ættar­sögu með fjöl­skrúðugu per­sónu­gallerí sem sé aðal­lega birtingar­mynd og út­rás fyrir hans eigin geð­flækjur og dutt­lunga.

„Ég þóttist vita að Lungu höfðaði ekki endi­lega til allra. Bókin tekur oft sér­kenni­lega slagi, þótt ég hafi reynt eftir bestu getu að hafa hana á­huga­verða og vonandi skemmti­lega líka. Að bókin hafi náð til les­enda, snert við sumum, og nú unnið til verð­launa er því á­kaf­lega á­nægju­legt, undar­legt – og satt að segja yfir­þyrmandi. Ég átti alls ekki von á því, það var í besta falli fjar­lægur draumur,“ sagði Pedro.

Um­sögn loka­dóm­nefndar:

Lungu er breið fjöl­skyldu­saga margra kyn­slóða úr ó­líkum heims­hornum, sem færist smám saman inn á okkar tíma­skeið hér á landi en teygir sig líka til fram­tíðar þegar kyn­slóðirnar safnast saman í sýndar­veru­leika sem kallast á við sjálfa al­heims­söguna. Hér er sleginn nýr tónn í ís­lenskri skáld­sagna­gerð með töfrandi frá­sagnar­gleði sem fer á­reynslu- og hispurs­laust á milli dýpstu til­finninga og á­taka til ævin­týra­legra gleði­stunda með goð­sagna­kenndu í­vafi – þannig að jafn­vel mestu hörmungarnar njóta góðs af gleðinni. Sam­bönd elsk­enda og kyn­slóða eru brotin og löskuð en sögur og minningar megna að lýsa upp ör­laga­stundir í lífi þeirra, sýna lesandanum sjálfan líf­sneistann og fanga oft kjarnann í langri ævi.

Eftir­farandi höfundar voru til­nefndir í flokki skáld­verka:

Auður Ava Ólafs­dóttir: Eden, útg. Bene­dikt bóka­út­gáfa
Dagur Hjartar­son: Ljósa­gangur, útg. JPV út­gáfa
Kristín Ei­ríks­dóttir: Tól, útg. JPV út­gáfa
Pedro Gunn­laugur Garcia: Lungu, útg. Bjartur
Sig­ríður Haga­lín Björns­dóttir: Hamingja þessa heims: Riddara­saga, útg. Bene­dikt bóka­út­gáfa

Dóm­nefnd fyrir til­nefningar skipuðu: Kamilla Guð­munds­dóttir, for­maður dóm­nefndar, Andri Yrkill Vals­son og Þor­valdur Davíð Kristjáns­son.

Að bókin hafi náð til les­enda, snert við sumum, og nú unnið til verð­launa er því á­kaf­lega á­nægju­legt, undar­legt – og satt að segja yfir­þyrmandi.

-Pedro Gunn­laugur Garcia