Bandaríski leikarinn og hjartaknúsarinn Paul Rudd segist hafa gert sig að fífli fyrir framan Jennifer Aniston við tökur á síðustu seríu af Friends. Hann greindi frá þessu þegar hann var gestur í þætti Graham Norton nú á dögunum.

Rudd lék persónuna Mike Hannigan sem giftist Phoebe Buffay í lokin á þáttaröðinni. Rudd segist hafa átt sérstaklega erfitt með að vingast við Jennifer Aniston, sem lék Rachel Green. Hann hafi reynt að brjóta ísinn milli þeirra þónokkrum sinnum með því að reyna að vera fyndinn.

Á fyrsta tökudegi sínum sá hann að Aniston var að hjóla um sviðið á segway-hjóli, vegna þess að hún var tábrotin. Rudd bað um að fá að prófa hjólið sem endaði á því að hann stýrði því aftur á bak og hjólaði beint yfir fótinn á Aniston.

Rudd fékk að vera hluti af síðasta þætti Friends en hann lék Mike í alls 17 þáttum. Í lokin á tökunum kom hann að Jennifer Aniston grátandi og ákvað að reyna að vera fyndinn til að hugga hana.

Þá sagði hann við hana: „Sko, okkur tókst það! Hvílíkt ferðalag,“ og gaf þannig í skyn að hann hafi verið hluti af þáttunum frá því að þeir byrjuðu.

Að hans sögn tók Aniston ekki vel í brandarann.