Soffíu grunaði ekki að síðan hennar Skreytum hús ætti eftir að slá svona rækilega í gegn. „Þetta er náttúrulega orðið stærra dæmi en ég átti von á í byrjun. Lítil hugmynd sem sneri að því að blogga örlítið er orðin að heimasíðu, stærsta heimilishópi á Facebook með um áttatíu þúsund fylgjendum, garðhóp og sumarbústaðahóp. Síðan er ég með samnefnda sjónvarpsþætti sem sýndir eru á Vísi og á Stöð 2+.

Takið eftir löbernum og hve fallega hann kemur út á borðinu.

Ég er bara ein af þessum ótrúlega heppnu manneskjum sem ná að sameina ástríðu og atvinnu, eða í mínu tilfelli að gera ástríðuna mína að atvinnu minni. Ég hef ávallt haft ótrúlega gaman af því að gera fallegt í kringum mig, að skapa stemningu og búa til umhverfi sem lætur mér líða vel.“

Engar fastar matarhefðir

Matarhefðir kringum páskana er eitthvað sem Soffía hefur ekki verið með. „Við erum víst ekki rík af matarhefðum fjölskyldan. Dóttirin hætti að borða kjöt fyrir nokkrum árum og það breytti ýmsu þegar kemur að því að elda mat. Við reynum bara að finna góða lausnir sem henta okkur öllum.

Blómin setja mikinn svip á heildarútkomuna og gleðja augað.

Ég held í raun að ég njóti þess að vera ekki með hefðir um páskana. Við erum svo oft fastheldin þegar kemur að jólum, þannig að ég bara nýt þess að gera páskana eins og okkur hentar best. Það hefur komið fyrir að við séum í bústað og þá er maður að gera eitthvað allt annað en hérna heima. Páskarnir snúast mest um að vera saman, að slappa svolítið af og borða nóg af eggjum.“

Páskaskrautið er vorskraut

Soffíu finnst fátt skemmtilegra en að skreyta og þegar tilefni gefst til þess grípur hún tækifærið. „Ég er dugleg að skreyta og páskarnir eru ekki undantekning á því. Ég lít á páskaskrautið sem vorskraut, og þetta er kjörið tækifæri til að skipta út þyngri teppum, gærum og púðum, fyrir eitthvað léttara og vorlegra. Eins finnst mér afskorin blóm og greinar alveg ómissandi á þessum árstíma. Ég hef stundum grafið upp páskaliljulaukana í garðinum, sett þá í skálar og svo aftur út í garð.“

Smáu hlutirnir setja svip á heimili Soffíu Daggar.

Soffa fann loks páskaskrautið sem heillaði hana upp úr skónum. „Það hefur í raun ekki verið mikið af páskaskrauti sem ég hef heillast af fyrr en fyrir þremur árum þegar ég sá Lene Bjerre-páskaskrautið sem fæst í Húsgagnahöllinni. Mér finnst það alveg einstaklega fallegt og það kemur alltaf eitthvað nýtt á hverju ári og ég hef verið að næla mér í hitt og þetta sem er að heilla.“

Soffía er hrifin af kanínum og má sjá þær víða um heimilið þegar að páskahátíðinni kemur.

Páskaföndrið hefur minnkað með árunum. „Á tímabili föndraði ég helling fyrir páskana. Skreytti egg með krökkunum þegar þau voru lítil, gerði svona páskafánalengjur úr gömlum bókablaðsíðum og fyrir nokkrum árum föndraði ég glimmeregg sem ég er reyndar enn mjög hrifin af.“

Skemmtilegt hvernig Soffía Dögg býr til kanínu með því að nota páskaegg. Falleg skreyting. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARISerbl_Myndatexti:

Annars eru það súkkulaðieggin sem heilla fjölskylduna helst. „Við erum öll einlægir aðdáendur Nóaeggja og það eru bara engir páskar án þess að fá þau. Ég hef reyndar líka tekið upp á því að skreyta borðið með súkkulaðieggjum og finnst það skemmtilegt á þessari súkkulaðihátíð.“

Alls staðar gefur að líta fallegt skraut.

Fallega lagt á borð

Páskaborðið er sá staður sem fær alla athyglina á páskunum. „Páskaborðið er svona létt og gróft í bland, en borðið okkar er þessi líka risastóri fleki 1,20 x 2,20 metrar og ég nýt þess að geta sett fullt af alls konar skrauti á það. Fallegi löberinn sem á stendur Gleðilega páska er frá einu fallegasta merki landsins, Jónsdóttur & co, sem hún Ragnhildur vinkona mín heldur utan um með svo mikilli alúð.“

Soffía er mikill fagurkeri og hugsar fyrir hverju smáatriði þegar lagt er á borð. „Matardiskarnir eru Broste úr Húsgagnahöllinni, en við fengum þá í brúðargjöf fyrir 17 árum. Diskamotturnar eru líka úr Höllinni og eru í miklu uppáhaldi, þær eru svo geggjaðar, sérstaklega á vorin og sumrin. Blómadiskarnir voru að heilla mig í ár og eru nýir frá Rúmfó, ferlega sætir svona til þess að koma með vorfílinginn. Hnífapörin eru svo frá Myrkstore.is sem er æðisleg lítil vefverslun. Svo eru það afskornu blómin sem mér finnst alltaf ómissandi og ég fer alltaf til í Samasem á Grensásvegi en þar er oft til mikið af spennandi blómum sem þú sérð ekki alls staðar.“