Dymbilvika er hálfnuð og framundan eru framlengdur langur föstudagur í svipugöngum hertra sóttvarna og súkkulaðihúðuð upprisugleði páskadags. Á válegum veirutímum er sjónvarpsgláp í þröngum hópum ein öruggasta dægradvölin og ekki spillir fyrir að nóg er af biblíutengdu efni á til dæmis Netflix og Amazon Prime.

Hér eru nokkur dæmi um hversu auðugan garð er að gresja og fólk á öllum aldri ætti að geta fundið eitthvað við sitt hæfi með smáskammti af heilögum anda þótt Kristur sjálfur sé ekki alltaf mættur í eigin persónu.


Kristsgervingarnir svokölluðu tryggja þó oft nærveru frelsarans en þótt það blasi ekki alltaf við hafa þeir jafnan sannfærandi skírskotun til Krists eða boðskapar hans. Þegar vel er að gáð leynist Jesús nánast alls staðar, jafnvel í E.T. og Forrest Gump.

Píslarsaga Brjánsa

Netflix

Hin umdeilda og sígilda Monty Python-mynd The Life of Brian er á Netflix og vart má hugsa sér betri og skemmtilegri hugvekju á páskadegi en einmitt þessa hrakfarasögu Brians sem þvælist á slóðum frelsarans og er meira að segja tekin í örlagaríkum misgripum fyrir Krist. Þá er nú eins gott að hafa hugfast að ætíð er farsælast að horfa á björtu hliðar lífsins. Jafnvel af krossinum.

Bresku háðfuglarnir sendu myndina frá sér 1979 og tilgangi þeirra var vitaskuld náð þegar hún varð umsvifalaust ákaflega umdeild. Síðan þá hefur margt breyst og þótt enn sé broddur í Brjáni þá hlýtur myndin um hann að geta talist fyrirtaks fjölskylduskemmtun.

Postulaspjall Lúkasar

Netflix

Myndin Paul, Apostle of Christ frá 2018 á sér stað á því herrans ári 67 þannig að hún gerist nokkru eftir að Monty Python krossfestu Brian og hér er ekkert að grínast með biblíusögurnar.


Jim Caviezel, sem lék sjálfan Krist í Píslarsögu Mels Gibson, er á nokkuð kunnuglegum slóðum en nú í hlutverki guðspjallamannsins Lúkasar. Sá leggur í mikla hættuför til Rómar á fund Páls postula sem bíður þess að verða tekinn af lífi að skipun Nerós keisara.

Páll styttir sér biðina eftir hinu óhjákvæmilega með því að flytja boðskap Jesús og fellst á beiðni Lúkasar um að segja honum ævisögu sína sem hann færir í letur og leggur um leið grunninn að stofnun kirkjunnar.

Hjartahreinn kjáni

Amazon Prime

Hvunndagshetjan hjartaprúða og einfalda Forrest Gump sver sig í ætt við Fávita Dostojefskís og segja má að báðir séu svokallaðir kristsgervingar. Saklausir og hrekklausir menn sem skjóta upp kollinum í spilltu samfélagi og hafa umtalsverð áhrif á umhverfi sitt með góðmennsku sinni.


Forrest átti það til að dúkka upp á ólíklegustu stöðum og afhjúpaði bæði hræsni samborgara sinna og opnaði augu manna fyrir breyskleika þeirra og brestum þegar þeir spegluðu sig í hreinni sál einfeldningsins.

Voru guðirnir geimfarar?

Netflix og Amazon Prime

Geimkrúttið E.T. sigraði heiminn í kvikmynd Stevens Spielberg frá árinu 1982. Eftir að geimveran jarðbundna varð strandaglópur á jörðinni kynntist hún hinum unga Elliott og vináttubönd þeirra urðu órjúfanleg.

E.T. boðar Elliott, vinum hans og fjölskyldu einlægan kærleiksboðskap og það er óhætt að segja að Elliott verði lærisveinn geimvitringsins sem er þeim eiginleikum gæddur að geta grætt sár og lífgað við visin blóm.


Félögunum stendur ógn af yfirvöldum sem vilja klófesta geimveruna til þess að gera á henni rannsóknir og E.T. endar á skurðarborði vísindamanna þar sem hann geispar golunni.

Þá kemur til kasta lærisveinsins unga sem rænir E.T. sem lifnar samstundis við. Eftir upprisuna tekur við æsilegur eltingaleikur þar sem þeir félagar hjóla upp til himna. E.T. hverfur svo út í óravíddir alheimsins en skilur eftir hluta af sjálfum sér í hjarta unga drengsins.


Rödd Guðs

Netflix

Í National Geographic-þáttunum The Story of God with Morgan Freeman fer, eins og titillinn gefur vísbendingu um, leikarinn Morgan Freeman um víðan völl í tíma og rúmi og skoðar Guð og guði frá ýmsum sjónarhornum. Freeman sjálfur hefur leikið Guð almáttugan í tvígang í gamanmyndunum Bruce Almighty og Evan Almighty þannig að flestir hafa nú orðið vit á því að hlusta þegar rödd hans hljómar.