Rósa er líka mikill fagurkeri og það sést vel þegar hún ber kræsingar fram á fagurlegan hátt þar sem hugsað er fyrir hverju smáatriði.

Rósa hefur einnig verið iðin sem rithöfundur og gefið út nokkrar matreiðslubækur, auk þess að vera ritstjóri hjá Bókafélaginu. Rósu finnst sérstaklega gaman að halda boð og nýtur hvert tilefni til að bjóða heim í sælkeraveislu.

Við fengum Rósu til að gefa lesendum uppskriftir að skotheldum partíréttum fyrir sumargleðina sem fram undan er.

„Það er fallegt að bera fram sælkerabakka eins og ég gef hér hugmynd að. Þið veljið einfaldlega það hráefni sem ykkur langar að bjóða upp á, osta, kex, skinku, pylsur, lax, grænmeti, ávexti, þurrkaða og ferska, kaldar sósur og hvað sem ykkur dettur í hug og gjarnan smá sætmeti með. Blandað og raðað fallega saman á stórum diski eða bakka og úr verður ómótstæðilegur partíplatti sem mjög fljótlegt er að búa til. Það getur líka verið skemmtilegt að hafa ákveðið þema, til dæmis undir ítölskum eða mexíkóskum áhrifum og velja þá þannig á bakkann. Hafið í huga að velja fjölbreytt hráefni og fallega liti. Við borðum jú fyrst með augunum, ef svo má að orði komast, eins og allir fagurkera og sælkerar vita,“ segir Rósa og brosir.

Einnig gefur Rósa hérna uppskriftir að tveimur einföldum og skotheldum ídýfum sem eru tilvaldar í sumarpartíin og útskriftarveislurnar.

„Þær eru báðar úr bókinni minni Partíréttir sem kom út árið 2013 og standa alltaf fyrir sínu. Einnig læt ég fylgja með snakkrétt sem afar einfalt er að útbúa en kemur skemmtilega á óvart.“

Partíplatti fagurkerans

„Að þessu sinni notaði ég parmesan- og gráðaost, skinku, sólstafi, reyktan silung, tvær tegundir af kexi og parmesanbrauðstangir, ólífur, granatepli, kíví, bláber, þurrkaðar gráfíkjur og apríkósur, pistasíuhnetur, gúrku, kokkteiltómata, vínber, harðfisk, hvítlauksídýfu og gvakamóle og lítil Lindubuff,“ segir Rósa.

Hér er svo á ferðinni pitsueðla sem enginn stenst.

„Þetta er vinsælasta ídýfan, eða eðlan, á mínu heimili.“

Ekki amalegt að hafa svona bakka á borðum í útskriftarveislunni.

Pitsueðla – pitsa án brauðs

400 g rjómaostur

100 g sýrður rjómi

1 dl pitsusósa

1 msk. pitsukrydd

1 dl sveppir, smátt saxaðir, má sleppa

1 dl græn paprika, smátt söxuð

80 g pepperoni, smátt skorið

4 hvítlauksrif, marin

2–3 dl rifinn ostur

Fersk basilíka, til skrauts

Hitið ofninn í 200 °C gráður. Hrærið pitsukryddinu saman við rjómaostinn og sýrða rjómann og setjið í botninn á eldföstu móti. Setjið pitsusósuna þar ofan á, 1 dl af rifnum osti og síðan sveppi. Dreifið loks papriku og pepperoni yfir, hvítlauk og afganginum af rifna ostinum. Bakið í 10-15 mínútur, eða þar til osturinn er orðinn sjóðandi heitur.

Heitt nachos

170 g tortillaflögur

2 dl salsasósa, bragðstyrkur að smekk

½ rauðlaukur, smátt saxaður

½ græn paprika, smátt söxuð

1 dl maískorn

1 dl rifinn ostur

Hitið ofninn í 200 °C gráður. Dreifið tortillaflögunum í eldfast mót. Dreifið salsasósu yfir, síðan rauðlauk, papriku og maískorni. Sáldrið osti yfir allt saman og bakið í 7–10 mínútur.

„Það er ótrúlega ljúffengt að baka gömlu, góðu kartöfluflögurnar með sósu í ofni,“ segir Rósa.

Kartöfluflögur bakaðar í ofni

175 g kartöfluflögur

80–100 g rjómaostur með sólþurrkuðum tómötum

1 msk. kapers eða ólífur, smátt saxaðar

Hitið ofninn í 225°C gráður. Dreifið kartöfluflögum í eldfast mót. Bræðið rjómaostinn í litlum potti við vægan hita. Hellið honum síðan yfir kartöfluflögurnar, stráið kapers yfir eða ólífum og bakið í 5 mínútur. ■