Bandaríska raunveruleikastjarnan og hótelerfinginn Paris Hilton kom fylgjendum sínum í opna skjöldu í gærkvöldi og tilkynnti að hún væri orðin móðir. Paris, sem er 41 árs, eignaðist barnið með aðstoð staðgöngumóður.
Um er að ræða heilbrigðan dreng sem hún eignast með eiginmanni sínum, Carter Reum, en þau gengu í hjónaband fyrir rúmu ári. Birti Paris fallega mynd á Instagram þar sem hún heldur í hönd sonarins.
Í samtali við tímaritið People segir Paris að það hafi alltaf verið draumur hennar að verða móðir. Hún sé svo ánægð að hafa fundið ástina í örmum eiginmanns síns og þau séu afar spennt að hefja þennan næsta kafla í lífi sínu.