Baywatch-stjarnan Pamela Anderson sló í gegn í sjónvarpsþáttunum um strandverðina vinsælu, þar sem hjartaknúsarinn David Hasselhoff fór fyrir leikhópi stæltra strandvarða á baðströnd í Kaliforníu. Fyrsti Baywatch-þátturinn var frumsýndur 1989 en þættirnir nutu gríðarlegra vinsælda á alþjóðavísu næstu 10 árin og voru sýndir á RÚV um árabil. Pamela skaust upp á stjörnuhimininn sem eitt helsta kyntákn tíunda áratugarins. Hún er nú skilin í fimmta sinn.

Dan Hayhurst og Pamela kynntust þegar hann var lífvörður leikkonunnar. Þau giftu sig í lok árs 2020 og að sögn heimildarmanna vefritsins Page Six gekk hjónabandið hafi gengið vel framan af. Síðan hafi samkomubann sett strik í reikninginn og eftir rúmt ár af stöðugri samveru hafi rómantíkin verið horfin úr sambandinu.

Fyrrgreindir heimildarmenn hafa eftir Pamelu að Hayhurst hafi viðhaft slæma framkomu í hennar garð og ekki sýnt henni stuðning.

Síðustu ár hefur Pamela Anderson snúið sér að góðgerðarstarfsemi og baráttumálum af ýmsu tagi. Þar má nefna baráttu hennar fyrir velferð dýra, baráttu gegn kynferðisofbeldi og klámi. Þá hefur hún verið ötul baráttukona fyrir málfrelsi blaðamanna og er yfirlýstur stuðningsmaður uppljóstrarans Julians Assange.