Banda­ríska leik­konan og fyrir­sætan Pamela Ander­son ber leikarann Tim Allen þungum sökum í ævi­sögu sinni sem er væntan­leg í lok mánaðarins.

Pamela lék um tíma í gaman­þáttunum Home Improvement á­samt Tim Allen sem fram­leiddir voru á árunum 1991 til 1999. Skömmu eftir að þættirnir hófu göngu sína, árið 1991, var Pamela 23 ára gömul og í ævi­sögu sinni rifjar hún upp ó­þægi­legt augna­blik þegar hún mætti Tim Allen fyrir utan búnings­her­bergi sitt.

„Fyrsta daginn sem ég var í tökum gekk ég út úr búnings­her­berginu mínu og mætti þá Tim, sem var í engu nema nátt­sloppi, á ganginum,“ segir Pamela að því er fram kemur í frétt Variety. Hún segir að Tim hafi opnað sloppinn og sýnt henni getnaðar­lim sinn.

„Hann sagði að þetta væri bara sann­gjarnt því hann hefði séð mig nakta. Núna værum við jöfn. Ég hló vand­ræða­lega,“ segir Pamela í bók sinni, Love, Pamela, sem kemur út þann 31. janúar næst­komandi.

Á þessum tíma var Tim 37 ára en Pamela að feta sín fyrstu fót­spor í leik­list eftir að hafa vakið at­hygli sem fyrir­sæta, meðal annars hjá tíma­ritinu Play­boy.

Varie­ty bar á­sakanirnar undir Tim sem þver­tók fyrir það að eitt­hvað þessu líkt hefði átt sér stað. „Þetta gerðist aldrei. Ég myndi aldrei gera svona lagað,“ hefur blaðið eftir leikaranum.