Bandaríska leikkonan og fyrirsætan Pamela Anderson ber leikarann Tim Allen þungum sökum í ævisögu sinni sem er væntanleg í lok mánaðarins.
Pamela lék um tíma í gamanþáttunum Home Improvement ásamt Tim Allen sem framleiddir voru á árunum 1991 til 1999. Skömmu eftir að þættirnir hófu göngu sína, árið 1991, var Pamela 23 ára gömul og í ævisögu sinni rifjar hún upp óþægilegt augnablik þegar hún mætti Tim Allen fyrir utan búningsherbergi sitt.
„Fyrsta daginn sem ég var í tökum gekk ég út úr búningsherberginu mínu og mætti þá Tim, sem var í engu nema náttsloppi, á ganginum,“ segir Pamela að því er fram kemur í frétt Variety. Hún segir að Tim hafi opnað sloppinn og sýnt henni getnaðarlim sinn.
„Hann sagði að þetta væri bara sanngjarnt því hann hefði séð mig nakta. Núna værum við jöfn. Ég hló vandræðalega,“ segir Pamela í bók sinni, Love, Pamela, sem kemur út þann 31. janúar næstkomandi.
Á þessum tíma var Tim 37 ára en Pamela að feta sín fyrstu fótspor í leiklist eftir að hafa vakið athygli sem fyrirsæta, meðal annars hjá tímaritinu Playboy.
Variety bar ásakanirnar undir Tim sem þvertók fyrir það að eitthvað þessu líkt hefði átt sér stað. „Þetta gerðist aldrei. Ég myndi aldrei gera svona lagað,“ hefur blaðið eftir leikaranum.